Einhverfir fluttir þrátt fyrir mótmæli

Ráðhúsið
Ráðhúsið mbl.is / Hjörtur

Skóla- og frístundaráð samþykkti á fundi sínum fyrir helgi að sérdeild fyrir nemendur með einhverfu í Hamraskóla, Hamrasetur, flytjist samhliða flutningi unglingastigs Hamraskóla yfir í Foldaskóla. Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í grunnskólum í skóla- og frístundaráði gagnrýndi ákvörðunina harðlega.

Í samþykkt meirihluta Besta flokksins og Samfylkingarinnar segir að sérdeildinni verði búin aðstaða í Foldaskóla í samræmi við tillögur og skýrslu starfshóps um sérhæfða sérdeild fyrir nemendur með einhverfu í Hamraskóla.

Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í grunnskólum í skóla- og frístundaráði lét af þessu tilefni bóka að ákvörðunin væri tekin þrátt fyrir eindregin mótmæli foreldra allra barna í deildinni og gagnrýndi það harðlega. „Starfsemi slíkra sérdeilda er sérstaklega viðkvæm og því lykilatriði að slík ákvörðun um stórfelldar breytingar sé tekin í sátt við þá foreldra sem nýta sér þjónustu hennar. Alvarlegt verður að teljast að borgaryfirvöldum hafi ekki tekist, á því ári sem liðið er frá því að ákvörðun um sameiningu unglingadeilda í sunnanverðum Grafarvogi var tekin, að fá foreldra í lið með sér.“

Fulltrúar meirihlutans svöruðu því til að undirbúningur sameiningar unglingadeilda í sunnanverðum Grafarvogi hefði staðið í hartnær ár, og sérdeild fyrir einhverfa nemendur hefði fengið sérstaka athygli í því ferli. „Öll fagleg rök hníga að því að unglingum farnist vel í stærra samfélagi unglinga, bæði námslega og félagslega. Þau rök eiga einnig við unglinga í sérdeild og mikilvægt að hafa sérdeildina á einum stað, aukinheldur að hægt er að skapa mikilvægt svigrúm til stækkunar deildarinnar.“

Þá segir meirihlutinn að áhyggjur foreldra barna í sérdeild séu eðlilegaren þess verði í alla staði gætt að undirbúningur gangi áfram vel og að þörfum nemenda í sérdeild verði mætt jafn vel, ef ekki betur í Foldaskóla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert