Erfðabreytt og lífræn ræktun geta þrifist saman

Kartöflan er dæmi um plöntu sem hefur verið ræktuð með …
Kartöflan er dæmi um plöntu sem hefur verið ræktuð með kynbótum í þúsundir ára. mbl.is/Golli

Erfðabreytt ræktun, lífræn ræktun og verndun líffræðilegrar fjölbreytni getur hæglega þrifist saman án vandræða. Þetta segir Kristinn P. Magnússon sameindaerfðafræðingur á Náttúrufræðistofnun Íslands

Kristinn mun á morgun flytja erindi sem hann kallar Erfðabreytt náttúra á síðasta Hrafnaþingi vormisseris. Hann segir að Íslendingar þurfi hins vegar að vera á varðbergi gagnvart ágengum framandi tegundum. Það sé hin raunverulega ógn sem steðjar að lífríki okkar.

Í erindinu verður fjallað um líffræðilega fjölbreytni, sem Kristinn segir að sé undur lífsins, hráefni þróunar og grundvöllur þess að lífverur og vistkerfi geti aðlagast breyttum aðstæðum.

„Án erfðaefnis þrífst ekkert líf og án erfðabreytinga verður engin þróun. Erfðaefnið er eins í öllum lífverum tvöfaldur spírall sem er samsettur úr DNA kjarnsýrunum fjórum adenín, cytósín, gúanín og týmín. Þess vegna er hægt að flytja insúlíngen úr manni í aðrar lífverur eins og sveppi eða bakteríur og fá þær til að framleiða prótín sem má einangra til að meðhöndla sykrusýki. Þannig er lyf eins og insúlín sem er framleitt í örverum nákvæmlega eins og insúlín sem er framleitt í manni og með sömu virkni. Á sama hátt hefur erfðatæknin gefið okkur innsýn í flókinn heim lífsins og sjúkdóma mannsins. Framfarir í læknisfræði og heilbrigðisvísindum eiga erfðatækninni mikið að þakka. Möguleikar erfðatækninnar eru óteljandi og margir sem fela í sér aðkallandi lausnir á yfirvofandi offjölgunarvanda mannkyns. Það hefur aldrei verið mikilvægara en í dag að vernda líffræðilegan fjölbreytileika og það verður best gert með því að vernda villta náttúru samhliða því sem við reynum að hámarka matvælaframleiðslu og nýtingu á þeim landbúnaðarsvæðum sem þegar standa til boða,“ segir í kynningu á erindi Kristins.

Kristinn bendir á að maðurinn hafi stundað kynbætur á nytjaplöntum og húsdýrum í á annan tug þúsunda ára og ræktað fram afbrigði sem eru orðin mjög frábrugðin upprunalegu tegundinni. Þannig megi með réttu halda því fram að flestar þær tegundir nytjaplantna og húsdýra í dag séu erfðabreyttar lífverur.

Vefur Náttúrufræðistofnunar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert