Hætt við að sáttin hverfi

Samtök iðnaðarins telja mikilvægt að auka fjárfestingar í landinu.
Samtök iðnaðarins telja mikilvægt að auka fjárfestingar í landinu.

Þegar Rammaáætlun er tekin úr faglegum farvegi og sett í pólitískt ferli er hætt við að traustið til áætlunarinnar og sáttin sem hún átti að skapa hverfi. Þetta sagði Bryndís Skúladóttir, forstöðumaður umhverfismála Samtaka iðnaðarins, á fundi í morgun.

Bryndís sagði að við vinnu við Rammaáætlun hefði verið lögð mikil áhersla á opið og gagnsæið ferli. Þegar verkefnisstjórn skilaði áætluninni hefði málið farið í lokað og ógagnsætt ferli. Hún sagði að hætt væri við að traustið sem vinnan við áætlunina var ætlað að skapa hverfi þegar svona væri unnið. Markmiðið með áætluninni hefði verið að skapa sátt og framtíðarsýn, en hætt væri við að ekki tækist að skapa þessa sátt vegna þess hvernig stjórnmálamenn hefðu unnið eftir að þeir tóku við vinnunni.

Bryndís vitnaði í Sveinbjörn Björnsson, fyrrverandi háskólarektor, sem var formaður verkefnisstjórnar. Hann sagði að pólitísk hrossakaup setji málið í sömu hjólför og málið var í áður en vinna við Rammaáætlun hófst.

Bryndís sagði að þingsályktunartillaga um Rammaáætlun gerði ráð fyrir að flestir virkjanakostir í nýtingarflokk væru gufuaflsvirkjanir. Þessir kostir kölluðu á miklar rannsóknir og það tæki lengri tíma að ráðast í þær en vatnsaflsvirkjanir.

Bryndís sagði að búið væri að leggja mikla fjármuni í að rannsaka og undirbúa vatnsaflsvirkjanir sem nú hefðu verið settar í biðflokk. Að nýta ekki þessa kosti þýddi sóun á fjármunum. Hún sagði að hún væri þeirrar skoðunar að það þyrfti að rökstyðja vel ef tekin yrði ákvörðun að nýta ekki þessa kosti en hún sagðist telja að það hefði ekki verið gert.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert