Hægri grænir kynntu stefnumál sín

Frá fundi Hægri grænna í dag.
Frá fundi Hægri grænna í dag. Árni Sæberg

Forsvarsmenn Hægri grænna - flokks fólksins kynntu helstu stefnumál flokksins á fjölmennum fundi á Múlakaffi fyrr í dag.

Fundurinn hófst klukkan 14:00 í dag og stóðu ræðuhöld forsvarsmanna flokksins yfir í rétt rúman hálftíma. Ræðumenn fundarins voru þau Guðmundur Franklín Jónsson, formaður Hægri grænna, Sigríður Pétursdóttir, kosningastjóri flokksins, Pétur Fjeldsted Einarsson og Guðrún Bryndís Karlsdóttir.

Í ræðu sinni fór Guðmundur Franklín yfir helstu stefnumál flokksins. „Við erum hægriflokkur, þá leggjum við áherslu á lága skatta og sem minnst ríkisafskipti, þetta er svona gegnumsneitt í gegnum stefnuna,“sagði Guðmundur Franklín á fundinum í dag. Í ræðu Guðmundar Franklín kom einnig fram að Hægri grænir legðu áherslu á sparnað og að forsvarsmenn flokksins hefðu fundið sparnaðarholur í 200 ríkisfyrirtækjum sem ekki hefði núþegar verið sparað í.

Guðmundur Franklín sagði fundinum að skuldaleiðrétting á verðtryggðum lánum heimilanna væri að hans mati mikilvægasta baráttumál flokksins en hann telur slík lán vera ólögleg samkvæmt lögum og reglum sem sett voru í kjölfar ESB-tilskipunar frá 1.
nóvember 2007.

„Það eru um 1.100 skráðir í flokkinn,“ sagði Guðmundur Franklín þegar blaðamaður Morgunblaðsins spurði hann, að fundi loknum, hversu margir væru skráðir í Hægri græna. Hann benti þó á að nokkur þúsund manns væru skráðir á hinar og þessar fésbókarsíður flokksins.



Guðmundur Franklín Jónsson, formaður Hægri grænna - flokks fólksins.
Guðmundur Franklín Jónsson, formaður Hægri grænna - flokks fólksins. Mbl.is/Júlíus Sigurjónsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert