Ísbjörn snýr aftur

Ísbjörninn á Hornströndum 2. maí 2011.
Ísbjörninn á Hornströndum 2. maí 2011. Mynd / Landhelgisgæslan

„Ég var nú að mæla hurðirnar í húsinu áðan, ég vona að hann komist inn,“ segir Ester Rut Unnsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Melrakkaseturs Íslands, en setrið mun hýsa uppstoppaðan ísbjörn sem skotinn var í Hælavík á Hornströndum í fyrra.

Melrakkasetrið var einn fjögurra umsækjenda um að fá björninn uppstoppaðan og hafa til sýnis og nú er ljóst að hann snýr aftur til Vestfjarða, segir í frétt á vef Bæjarins besta.

„Birnan gekk á land í Hornvík og var skotin tæpum tveimur vikum áður en við fórum þangað með fyrsta rannsóknarhópinn okkar,“ segir Ester, en setrið rannsakar ábúð refa og frjósemi þeirra á Hornströndum ásamt því að rannsaka samskipti ferðamanna og refa á svæðinu. „Við fréttum af því að hægt væri að sækja um að fá björninn uppstoppaðan og hafa til sýnis og ákváðum að slá til,“ segir Ester, en það er Náttúrufræðistofnun Íslands sem sér um að stoppa björninn upp. Ákveðið var á ársfundi Náttúrufræðistofnunar að Melrakkasetrið fengi björninn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert