Bannað að deila myndum af Ólympíuleikunum

Ólympíuvöllurinn í Lundúnum.
Ólympíuvöllurinn í Lundúnum. Reuters

Áhorfendum á Ólympíuleikunum í Lundúnum í sumar verður óheimilt að birta myndir og myndskeið sem þeir taka á leikunum opinberlega. Þ.á.m. verður þeim bannað að birta slíkt myndefni samskiptasíðum á borð við Facebook.

Þetta kemur fram í þeim skilmálum sem að skipuleggjendur Ólympíuleikanna hafa sett fyrir miðakaupum á þá. Í grein 19.6.3. í skilmálunum segir m.a að ljósmyndir, myndbönd og hljóðupptökur af leikunum sem teknar eru af handhafa miða megi ekki nota í neinum öðrum tilgangi en til persónulegra nota og til nota á heimili. Jafnframt megi handhafi ekki birta slíkt efni á samskiptasíðum á internetinu.

„Ég hef ekki heyrt af því að neinn íþróttaviðburður hér hafi bannað myndatökur eða verið með einhverja skilmála hvað það varðar,“ segir Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Íþrótta- og ólympíusambands Íslands, aðspurð hvort hún viti til þess að svona skilmálar hafi verið settir við miðakaup inn á íslenska íþróttaviðburði.

Líney Rut hafði ekki heyrt af þessum skilmálum þegar að blaðamaður hafði samband við hana en hún benti þó á að svipaðar reglur hefðu lengi gilt fyrir þá íþróttamenn sem taka þátt á leikunum. „Íþróttafólk þarf að skrifa undir ákveðna skilmála um hvaða það má og hvað það má ekki gera t.d. eins og inn í ólympíuþorpi og þetta er svona til þess að vernda líf íþróttafólks og á sínum tíma var þetta líka gert til þess að fá stjörnurnar inn í ólympíuþorpið,“ segir Líney Rut.

Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ.
Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert