Alvarlegir gallar á frumvarpinu

mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Alvarlegir gallar eru í frumvarpi um veiðigjöld, að mati tveggja sérfræðinga sem atvinnuveganefnd Alþingis fékk til að meta áhrif veiðigjalda á sjávarútveginn. Í greinargerð þeirra segir að aðferð frumvarpsins hafi „skipulega ofmetið rentu, svo nemur tugum prósenta hefði henni verið beitt á undanförnum árum.“

Atvinnuveganefnd fékk Daða Má Kristófersson, dósent við Háskóla Íslands og Stefán B. Gunnlaugsson, lektor við Háskólann á Akureyri, til að meta áhrif frumvarpsins.

Í greinargerð þeirra segir að alvarlegur ágalli sé á frumvarpinu hvað það varðar að gögn hafi ekki verið uppfærð. Álagning veiðigjalds byggi þannig á tveggja ára gömlum rekstrargögnum sem þurfi að uppfæra. „Sem dæmi hefði sérstakt veiðigjald verið 140% af metinni auðlindarentu ef aðferð frumvarpsins um uppfærslu gagna hefði verið beitt á tímabilinu 2006-2010. Augljóst er að ekki verður búið við svo umfangsmikla skekkju.“

Í skýrslunni segir að sú aðferðarfræði að meta tilflutning auðlindarentu frá veiðum til vinnslu í frumvarpi ríkisstjórnarinnar um veiðigjöld sé ónothæf. Sú aðferð sem notuð er í frumvarpinu leiði til tvísköttunar á þeim umframhagnaði sem önnur vinnsla uppsjávarfisks en bræðsla skapar. Umfang þessarar skattheimtu hlaupi á hundruðum milljóna á ári.

Bent er á að fjármagnsþörf í veiðum og vinnslu sé vanmetin. Mat frumvarpsins á fjármagnskostnaði sé tilviljunarkennt.

„Að teknu tilliti til allra þessara ágalla er niðurstaðan sú að umfang gjaldtöku samkvæmt frumvarpinu sé langt umfram það sem útgerðin getur staðið undir. Verulegar breytingar þarf að gera á aðferðarfræði frumvarpsins við mat á auðlindarentu áður en hægt er að ákvarða hvað mundi teljast hófleg gjaldtaka. Álagning sem byggir á meðaltalsgögnum heillar atvinnugreinar, gögnum sem aldrei var safnað í þeim tilgangi að meta auðlindarentu, þarf að vera hófleg. Núverandi gagnagrunnur leyfir ekki nákvæmt mat á auðlindarentu sem sjávarútvegurinn skapar. Nauðsynlegt er að fram fari rannsókn á umfangi auðlindarentu og aðferðum sem hægt er að nota til að meta hana áður en ráðist er í skattlagningu auðlindarentu í því umfangi sem frumvarpið gerir ráð fyrir.“

Í greinargerð Daða og Stefáns er skoðuð fjárhagsstaða 23 sjávarútvegsfyrirtækja í aflamarkskerfinu. Fram kemru að fjárhagsstaða þessara fyrirtækja sé misjöfn. Staða ellefu fyrirtækja sé góð; þau séu annað hvort skuldlaus eða mjög fljót að greiða upp skuldir. Sjö fyrirtæki séu í erfiðri stöðu og staða fimm fyrirtækja sé slæm. Líklegt sé að að komi til fjárhagslegrar endurskipulagningu þeirra á næstu misserum.

Í skýrslunni segir að ekkert af 10 stærstu útgerðarfyrirtækjum landsins séu í hópi þessara fimm sem séu í verstri stöðu. Þessi fimm séu staðsett á vesturhluta landsins.

Fjallað er einnig um tólf fyrirtæki í krókaaflamarkskerfinu (litla kerfinu). Fram kemur að fjárhagsstaða þeirra sé mjög mismunandi, „en yfirleitt er hún afleit“. Þessi fyrirtæki eigi sér því fáa möguleika.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert