Vilja Hjallastefnuskóla á Tálknafirði

Leikskólinn Laufásborg í Reykjavík er einn 14 skóla sem Hjallastefnan …
Leikskólinn Laufásborg í Reykjavík er einn 14 skóla sem Hjallastefnan rekur. mbl.is/Valdís Þórðardóttir

 Stefnt er að því að Hjallastefnan taki við rekstri Tálknafjarðarskóla frá og með næsta hausti. Verður það þá í fyrsta sinn sem Hjallastefnan verður innleidd á unglingastigi á Íslandi. Sveitarstjórinn segist spenntur og að sömu sögu sé að segja um foreldra barnanna.

„Þetta er búið að gerast mjög hratt,“ segir Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir, sveitarstjóri í Tálknafirði, en viljayfirlýsing við Hjallastefnuna verður undirrituð á morgun. Mun Margrét Pála Ólafsdóttir, fræðslustjóri Hjallastefnunnar, skrifa undir samkomulagið og ræða við foreldra að því loknu. „Þær Margrét og Áslaug Hulda Jónsdóttir (framkvæmdastjóri Hjallastefnunnar) komu og heimsóttu okkur í síðustu viku en við höfum verið að vinna skólastefnu í sveitarfélaginu. En það var gerður svo góður rómur að þeirra tali að foreldrar fóru að lýsa því yfir að þá langaði í skóla í anda Hjallastefnunnar. Þá var nú ekki lengi verið að taka ákvörðun.“

Tálknafjarðarskóli er samrekinn grunn,- leik- og tónlistarskóli og nemendurnir eru um 70 talsins.

Eyrún segir að í kjölfar viljayfirlýsingarinnar verði gengið til samninga um að Hjallastefnan taki yfir rekstur skólans frá næsta hausti. Líklegt er að samið verði um reksturinn til þriggja ára til að byrja með. Skólastjóri Tálknafjarðarskóla til þriggja ára er að láta af störfum og segir Eyrún við þær breytingar hentugt að taka ákvörðun um breytta stefnu. 

„Það er mjög mikilvægt að foreldrarnir eru með okkur í þessu,“ segir Eyrún. Hún segir að sveitarfélagið muni áfram eiga skólahúsnæðið og að kostnaður við rekstur skólans eigi ekki eftir að aukast, vonandi að minnka.

Spurð hvað það sé við Hjallastefnuna sem heilli, svarar Eyrún fyrir sitt leyti: „Stefnan er afskaplega einföld og skýr. Ramminn er einfaldur og góður fyrir börnin og starfsfólkið. Áður en þær komu frá Hjallastefnunni að kynna okkur þetta, var ég með ýmsar skoðanir til dæmis hvað varðar kynjaskiptingu nemenda hluta dags. En eftir að hafa fengið útskýringar á því hvernig þetta virkar er ég sannfærð um að þetta styrki hvort kynið um sig.“

Eyrún segir að árangur barna sem eru í skólum Hjallastefnunnar sé eftirtektarverður. „Við erum stolt af því og finnst felast tækifæri í því að verða fyrsti skólinn með unglingastigi sem Hjallastefnan myndi reka.“

Hjallastefnan ehf. rekur 14 skóla á Íslandi, aðallega á höfuðborgarsvæðinu. Tveir skólar eru reknir utan höfuðborgarsvæðisins, leikskólar í Reykjanesbæ og í Borgarbyggð.

Heimasíða Hjallastefnunnar

Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir, sveitarstjóri Tálknafjarðar.
Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir, sveitarstjóri Tálknafjarðar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert