Ungir síbrotamenn í fangelsi

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sakfellt fjóra karlmenn fyrir fjölmörg brot. Mennirnir hafa m.a. gerst sekir um þjófnað, eignaspjöll, umferðar- og fíkniefnalagabrot. Einn fjórmenninganna hlaut tveggja ára fangelsi, annar hlaut 12 mánaða fangelsi og tveir skilorðsbundna dóma í fjóra og sex mánuði.

Sem fyrr segir eru brotin fjölmörg en þau voru framin víða um land í fyrra og á þessu ári. Sá sem hlaut þyngsta dóminn er 26 ára gamall og var hann jafnframt sviptur ökurétti í tvö ár. Sá sem næst þyngsta dóminn hlaut er tvítugur að aldri og hefur hann verið sviptur ökurétti ævilangt. Þeim er jafnframt gert að greiða háar skaðabætur, auk máls- og sakarkostnaðar.

Mennirnir voru m.a. ákærðir fyrir að brotist inn í fjölmargar verslanir og stolið þaðan fjármunum og vörum, m.a. Kitchen Aid hrærivél og íþróttapeysu.

Einnig er um að ræða umferðarlagabrot, s.s. hraðakstur og akstur undir áhrifum vímuefna. Í nokkrum tilfellum er að um að ræða bíla sem höfðu verið teknir ófrjálsri hendi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert