„Við verðum að halda sjó“

Eiríkur Tómasson.
Eiríkur Tómasson. mbl.is/Rax

Réttarvörslukerfið á í vök að verjast og andrúmsloftið í þjóðfélaginu breyttist eftir atburðina haustið 2008. „Auðvitað hefur það áhrif, það er ómögulegt að horfa framhjá því. En við verðum að halda sjó, við sem erum valin til að varðveita réttarkerfið,“ sagði Eiríkur Tómasson hæstaréttardómari á lagadeginum og einnig að mál sérstaks saksóknara séu eflaust erfið rannsóknar og verði væntanlega erfið úrlausnar.

Eiríkur sat á rökstólum með Birni Þorvaldssyni saksóknara hjá sérstökum saksóknara og hæstaréttarlögmönnunum Gesti Jónssyni og Þórunni Guðmundsdóttur og var umræðuefnið fyrst þau mál sem eru til rannsóknar og meðferðar hjá embætti sérstaks saksóknara. Var meðal annars rætt um væntingar sem gerðar eru til árangurs í málunum og þrýstinginn sem komi frá almenningi.

Meðal þess sem fram kom í máli Eiríks er að í þeim málum sem upp hafa komið verði að halda í heiðri mannréttindi þeirra sem bornir eru sökum. „Það eru mjög mikilvæg réttindi og algjörlega ómissandi í réttarríki. Ef við horfum framhjá þeim erum við ekki að tala um réttarríki.“

Traust eykst ekki með óupplýstum málum

Hann sagði að þjóðfélagslega séð væri best að málum vegna hrunsins ljúki sem fyrst. Þetta séu þó mál sem þurfi að rannsaka til hlítar, þjóðfélagið geri beinlínis kröfu um það, og óæskilegt væri ef það tækist ekki. „Ég held að traust muni ekki aukast ef við stöndum uppi eftir fimm til tíu ár og ekkert af þeim málum hafi verið upplýst. Það getur verið að það verði enginn sakfelldur eða fáir, færri en menn halda kannski. Þannig verður það að vera. Við getum ekki sveigt réttarríkið fyrir almenningsálitið. En það er óásættanlegt að þau verði óupplýst.“

Einnig sagði hann að afar mikilvægt væri að efnislega væri leyst úr málum. Að hans mati sé slæm niðurstaða ef vísa þurfi máli frá, en einnig ef sekir menn séu dæmdir sýkn saka, en það komi fyrir af og til. „Það er það verð sem við gjöldum fyrir réttarríkið. Þetta skilja lögfræðingar en almenningur á erfitt með að skilja það, að réttaríkið er keypt þessu verði.“

Meðal viðstaddra var Ólafur Þór Hauksson sérstakur saksóknari sem kvað sér hljóðs. Sagði hann að útundan verði í umræðunni þau mál sem ekki sé lokið með ákæru, þau mál sem felld séu niður eða vísað frá rannsókn. Þau skipti tugum. Þá sagði hann að rannsókn í töluvert mörgum stórum málum muni ljúka á þessu ári.

mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert