Allt fullt hjá Bauhaus

Gríðarlegur fjöldi manns mætti fyrir utan nýja verslun Bauhaus í morgun þegar verslunin var opnuð kl. 8. Um 600 bílastæði eru við verslunina og voru þau öll orðin full talsvert áður en verslunin opnaði.

Halldór Ó. Sigurðsson, framkvæmdastjóri Bauhaus á Íslandi, sagði í samtali við mbl.is í gær að með þessari nýju verslun yrði öflug sprenging inn á íslenskan markað. Miðað við þann fjölda sem var mættur í morgun má draga þá ályktun að þetta sé rétt.

Klukkan sjö í morgun hófst opnunarhátíð Bauhaus en henni stýrði Felix Bergsson leikari. Happdrættismiðum var dreift á meðal viðskiptavina en 10 heppnir þátttakendur munu vinna 100 þúsund króna úttekt í versluninni.

Verslunin er 22 þúsund fermetrar að stærð og þar verða yfir 120 þúsund vörunúmer í boði.

Byggingarvöruverslunin Bauhaus hefur undanfarið auglýst 12% verðvernd á öllum vörum. Samkvæmt auglýsingum verslunarinnar felst verndin í því að ef viðskiptavinur finnur sömu vöru og hann keypti í versluninni á lægra verði hjá keppinaut, innan við 30 dögum frá kaupum, muni Bauhaus endurgreiða honum mismuninn auk 12% af verði keppinautarins.

Upphaflega stóð til að opna Bauhaus-verslunina árið 2008 en því var frestað vegna bankahrunsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert