Óðs manns æði að virkja

Flögulón í Skaftárhreppi.
Flögulón í Skaftárhreppi. Ljósmynd/Haukur Snorrason

„Þetta er einfaldlega óðs manns æði,“ segir Heiða Guðný Ásgeirsdóttir, bóndi á Ljótarstöðum um virkjanaáætlanir í Skaftárhreppi.

Landvernd og Eldvötn, samtök um náttúruvernd í Skaftárhreppi, stóðu í dag fyrir málþingi undir yfirskriftinni Einstök náttúra Eldsveitanna. Á þinginu voru ræddar áætlanir um tvær virkjanir við Fjallabakssvæðið, annars vegar Búlandsvirkjun í Skaftártungu og hins vegar Atleyjarvirkjun austan Mýrdalsjökuls í Hólmsá. Yfir 100 manns sóttu málþingið.

Heiða Guðný flutti erindi um skaðsemi virkjana á landbúnað á svæðinu. „Ég er mjög andsnúin þessum virkjunum, ég tel að virkjanir á borð við þessar eigi bara heima í verndarflokki innan rammaáætlunar. Þær myndu hafa mjög neikvæð áhrif á landbúnað á svæðinu, og þá sérstaklega sauðfjárbúskap.“

Að sögn Heiðu Guðnýjar hefur þetta mun víðtækari áhrif en í fyrstu kann að virðast. „Ef þessar áætlanir ná fram að ganga munu þær hafa eyðileggjandi áhrif á ferðaþjónustu á svæðinu, Tungufljótið og Hólmsáin eru þekktar náttúruperlur og umfangið á hvorri lóð um sig er auk þess gríðarmikið, eða um 10 ferkílómetrar.“

Hún nefnir sem dæmi að við Hólmsá muni margir hektarar af aldargömlum villtum birkiskógi fara undir lón.

Heiða nefnir að framkvæmdirnar myndu að miklu leyti eyðileggja uppbyggingu í ferðaþjónustu á síðustu árum á Skaftársvæðinu. „Hér er nýbúið að stækka Vatnajökulsþjóðgarð og það skýtur skökku við að setja vinnu og fjármagn í þjóðgarðinn og demba svo svona slysi rétt við hann.“

Skammtímalausn

Heiða segir að í samhengi við atvinnulífið sé um að ræða skammsýnislega lausn. „Ég hef enga trú á að þetta bjargi atvinnulífi í Skaftárhreppi, ég held að þetta sé bara skammtímabóla. Talað er um mörg störf á uppbyggingartímanum, sem yrði um tvö ár í hvoru tilfelli um sig. Hér eru hins vegar ekki margir íbúar og aðallega yrði um að ræða aðflutt vinnuafl, sem myndi vitanlega hjálpa til, en í báðum tilfellum er einungis um tveggja ára innspýtingu að ræða.“ Að sögn Heiðu eru afar fá ef einhver langtímastörf sem fylgja virkjunum af þessu tagi.

Aðspurð hvaða bein áhrif virkjanirnar hefðu á búskap segir Heiða Guðný að þær yrðu stórtækar og afar neikvæðar. „Í báðum tilfellum er um gróið land að ræða auk þess sem lónið sem færi undir Búlandsvirkjun er láglendasta beitiland í Skaftártungu. Á þessu svæði er sauðfé sleppt fyrst á vorin, áður en háfjallagróðurinn er tilbúinn. Féð færir sig svo sjálft hærra eftir því sem gróðurinn býður upp á. Virkjanirnar myndu þannig seinka sleppitíma á búfé og þá þarf að hafa sauðféð lengur heima á túnum, en því fylgir mikill kostnaður.“

Landið er í dag fullnýtt og eins og er ber það nýtinguna vel, en ef svo stórt land verður tekið þá verður of mikið álag á því landi sem eftir verður með sama fjölda af sauðfé. Framkvæmdirnar myndu því óumflýjanlega kalla á minnkun á búunum.

Heiða Guðný segir meðalaldur bænda í Skaftártungum vera lágan á landsvísu. „Hér er mikill kraftur í búskap og menn vilja síst fara að draga saman á þessum tímapunkti.“

Dimmaglúfur í Tungufljóti.
Dimmaglúfur í Tungufljóti. Ljósmynd/Ingibjörg Eiríksdóttir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert