Skoða hækkun á niðurgreiðslum til dagforeldra

Frá Ísafirði.
Frá Ísafirði. mbl.is/Ómar Óskarsson

Lagt hefur verið til að niðurgreiðslur Ísafjarðarbæjar til dagforeldra verði hækkaðar vegna barna eldri en 15 mánaða, sem eru í daggæslu í heimahúsi. Fræðslunefnd lagði til við bæjarráð að skoða möguleikann á því að auka í 80 þúsund krónur niðurgreiðslu til dagforeldra með börnum sem eru orðin 18 mánaða og eru á biðlista eftir leikskólaplássi en hafa ekki fengið pláss. Hafni forráðamaður leikskólaplássi falli viðbótarniðurgreiðslan niður. Einnig mætti skoða möguleikann á því að hækka niðurgreiðslu barna eldri en 15 mánaða um 50%, segir í frétt Bæjarins besta um málið.

Bæjarráð hefur falið sviðsstjóra skóla- og tómstundasviðs að útfæra tillögur sem miða að því að bjóða öllum börnum sem verða 18 mánaða á þessu ári leikskólapláss í haust. Tillögunum á að fylgja kostnaðarmat. Í framhaldinu verði skoðað með niðurgreiðslur til dagforeldra.

Á síðasta fundi bæjarráðs var greint frá því að 39 börnum hefur verið úthlutað leikskólapláss á Sólborg og Eyrarskjóli á Ísafirði í ár. Sólborg er fullsetin eins og er en nokkur laus pláss eru á eldri deildum á Eyrarskjóli.

Eftir eru á biðlista 20 börn. Af þeim verða sex börn 18 mánaða í haust og fjórtán börn sem verða 18 mánaða um áramót.

„Reynslan undanfarin ár hefur sýnt að oft verður meiri hreyfing á plássum á vorin, þ.e. plássum er sagt upp sem ekki var gert ráð fyrir og þannig komast fleiri börn af biðlistanum inn á leikskólana. Þannig að ekki er útilokað að það geti verið hægt að taka fleiri börn inn í sumar,“ segir í minnisblaði skóla- og sérkennslufulltrúa Ísafjarðarbæjar.

Eins og undanfarin ár er nóg af lausum plássum á leikskólunum á Flateyri og Þingeyri en leikskólinn á Suðureyri hefur verið ágætlega nýttur og verður það einnig næsta vetur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert