Fréttaskýring: Huang á borði Oddnýjar og Steingríms

Grímsstaðir á Fjöllum.
Grímsstaðir á Fjöllum.

Áform kínverska auðjöfursins Huang Nubo um ferðaþjónustu og afþreyingu á Grímsstöðum á Fjöllum eru nú komin á borð Oddnýjar G. Harðadóttur, iðnaðarráðherra og fjármálaráðherra. Hún kynnti í ríkisstjórn sl. föstudag fjárfestingarsamning sem nefnd um ívilnanir vegna nýfjárfestinga leggur til að gerður verði við Huang Nubo og nýtt félag í hans eigu; Zhongkun Grímsstaðir ehf. Oddný hefur lýst jákvæðum vilja sínum í garð þessara áforma en þau eiga eftir að fá samþykki á fleiri vígstöðvum þar sem reyna mun á mismunandi lagabálka.

Eins og fram hefur komið í fréttum er um leigusamning að ræða með sérstökum ívilnunum, til samræmis við lög nr. 99 frá árinu 2010 um ívilnanir vegna nýfjárfestinga. Fram kom í Morgunblaðinu í gær að gera þarf hefðbundinn lóðarleigusamning til 99 ára um landið undir húsin en um hinn hluta jarðarinnar á að gera 40 ára leigusamning.

Fyrri áform Huang Nubo gengu út á að kaupa Grímsstaði en sem kunnugt er gekk það ekki upp vegna andstöðu Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra við að veita Huang undanþágu fyrir kaupunum. Nú hyggst sá kínverski leigja landið af félagi í eigu sveitarfélaganna á Norðausturlandi, sem ætla sér að kaupa Grímsstaði. Jörðin er að 25% hluta í eigu ríkisins og fer Steingrímur J. Sigfússon landbúnaðarráðherra með þann hlut. Talsmaður Huang Nubo, Halldór Jóhannsson, segist reikna með að áformin eigi því einnig eftir að fara á borð Steingríms. Þrátt fyrir andstöðu innanríkisráðherra vonast Halldór til þess að landbúnaðarráherra muni ekki hindra framgang málsins. Huang Nubo hafi allan tímann viljað vinna þetta mál í góðu samráði við stjórnvöld og m.a. strax lýst því yfir að hann hefði ekki í huga nýtingu á auðlindum á svæðinu eins og vatnsréttindum.

Hefst starfsemin 2016?

„Við teljum að fjárfestingarsamningurinn og aðrir samningar gangi í gegn á næstu vikum,“ segir Halldór, sem bindur vonir við að undirbúningsframkvæmdir eins og hönnunar- og skipulagsvinna geti farið í gang á þessu ári og framkvæmdir hafist á Grímsstöðum næsta vor. Samkvæmt tímaáætlun verði svo hægt að hefja starfsemi árið 2016. Huang Nubo hefur einnig áform um að reisa hótel í Reykjavík en Halldór segir það allt annað mál sem krefjist annarra samninga en vegna Grímsstaða.

Áformin á Fjöllum eru ekki smá í sniðum, eða fyrir alls um 16,2 milljarða króna. Huang Nubo vill reisa 100 herbergja lúxushótel á Grímsstöðum, auk 100 herbergja fjölskylduhúsa eða nokkurs konar sumarhúsa. Byggja á golfvöll og aðstöðu fyrir hestamennsku, baðlaugar og ýmsa aðra afþreyingu. Einnig stendur til að endurbæta flugbrautina á Grímsstöðum þannig að hægt verði að bjóða upp á útsýnisflug. Hyggst kínverska félagið útvega nokkrar litlar flugvélar til þess. Landsvæðið undir alla þessa starfsemi er á nærri 3.000 hekturum. Framkvæmdir á undirbúningstíma gætu skapað 400-600 störf og um 400 störf þegar reksturinn verður kominn vel af stað. Að sögn Halldórs verður fyrst og fremst reiknað með innlendu vinnuafli og hráefni. Ekki er búist við kínversku vinnuafli, að öðru leyti en því að matreiðslumenn á hótelinu gætu orðið kínverskir eða af öðru þjóðerni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert