Markmiðum um sjálfbæra uppbyggingu stefnt í hættu

„Það er mat Orkustofnunar að með þessu verði markmiðum um sjálfbæra uppbyggingu raforkuframleiðslunnar stefnt í hættu,“ segir í umsögn Orkustofnunar um tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða sem nú liggur fyrir Alþingi. 

 „Þrýstingur á hraðari nýtingu jarðvarmans eykst og það tæknilega og efnahagslega öryggi og þar með sú hagkvæmni, sem fæst með því að virkja samhliða jarðhita og vatnsafl verður ekki fyrir hendi,“ segir í umsögninni.

Í umsögninni kemur fram að talið sé að tillagan víki frá faglegum niðurstöðum verkefnisstjórnarinnar og upphaflegri þingsályktunartillögu sem fór til umsagnar. Á þetta einkum við um flutning á þremur virkjunarkostum í vatnsafli á Suðurlandi, Urriðafossvirkjun, Hvammsvirkjun og Holtavirkjun, öllum í Þjórsá. Tillagan gerir ráð fyrir að hagkvæmustu og best rannsökuðu virkjunarkostirnir verði fluttir úr orkunýtingarflokki í biðflokk. Þá eru virkjunarkostir í háhita, Hágönguvirkjanir 1 og 2, sem og í vatnsafli Skrokkölduvirkjun, einnig fluttir úr nýtingarflokki í biðflokk, án þess að faglegum forsendum sem lágu til grundvallar mati faghópa sé hnekkt.

Umsögnina má nálgast í heild sinni hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert