ESB hótar viðskiptabanni

Makríldeilan hefur staðið í þrjú ár.
Makríldeilan hefur staðið í þrjú ár. mbl.is/Eggert

Makríldeilan gæti náð nýjum hæðum á næsta ári en Evrópusambandið hyggst setja á viðskiptabann á fiskinnflutning Íslendinga og Færeyja. Maria Damanaki sem fer með sjávarútvegsmál í ESB, segir að um leið og reglugerðir verði fyrir hendi muni hún gefa út viðskiptabann.

Hingað til hefur framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ekki getað beitt refsiaðgerðum í makríldeildunni við Íslendinga og Færeyinga þar sem reglugerðir sem heimila slíkt hefur vantað. Í viðtali við breska viðskiptablaðið The Grocer segir Damanaki að breyting sé í vændum og að viðskiptabann fylgi í kjölfarið.

Damanaki segir í viðtalinu að Íslendingar og Færeyingar séu ósamvinnuþýðir og að engar vísindarannsóknir styðji ákvörðun þeirra um umfang veiðanna.

Ef ekki náist samkomulag við Íslendinga og Færeyinga fljótlega verði framkvæmdastjórn Evrópusambandsins að grípa til aðgerða. Segir Damanaki að deilan verði að leysast á þessu ári.

Kosið verður um reglugerðarbreytingarnar í júní. Samkvæmt reglunum fær ESB heimild til að grípa til aðgerða gegn ríkjum sem eru ósamvinnuþýð og taka ekki upp samþykktar reglur sambandsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert