Óverðtryggð lán næm fyrir vaxtahækkunum

mbl.is/Árni Torfason

Fjármálaeftirlitið vekur athygli neytenda á næmi greiðslubyrði óverðtryggðra lána með breytilegum vöxtum fyrir vaxtahækkunum og hvetur þá til varkárni í skuldsetningu í nýrri samantekt á vef sínum.

Þar kemur fram að á síðastliðnum 18 árum hafa stýrivextir Seðlabankans verið á bilinu 4,25% til 18%. Bankinn hefur fjórum sinnum á tímabilinu hafið hækkunarferli sem staðið hefur frá 3 mánuðum upp í rúm 4 ár, en hækkunarferli er skilgreint sem tvær eða fleiri hækkanir í röð.

FME tekur sem dæmi í samantekt sinni að mánaðargreiðsla 20 milljón króna láns til 25 ára myndi hækka um 25.503 kr. úr 128.860 kr. í 154.363 kr. við 2% vaxtahækkun. Ekki sé óraunhæft fyrir lántakendur að vera viðbúnir slíkri hækkun. Leiddi ferlið til 4% hækkunar áður en því lyki hefði það tvöföld hækkunaráhrif og greiðsla umrædds láns myndi hækka um 51.006 kr. svo dæmi sé tekið.

Áhrif á mánaðargreiðslu samsvarandi láns til 40 ára yrðu heldur meiri, en hún myndi hækka um rúmar 29.019 kr. úr 110.043 kr. í 139.062 kr. við sömu vaxtahækkun. 4% hækkunarferli myndi þá leiða til rúmlega 58.038 kr. hækkunar í mánaðarlegri greiðslubyrði, að því er segir í nýrri samantekt FME.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert