Vilja 40 metra mastur á tindinn

Grafan á tindi Úlfarsfells.
Grafan á tindi Úlfarsfells. Morgunblaðið/Styrmir Kári

Í hæsta tind Úlfarsfells var í síðustu viku grafinn um 30 metra langur skurður af tindinum. Í skurðinn á að leggja ljósleiðara og rafmagnstaug, frá byggð og upp á tind, því á tindinum ætlar Vodafone að reisa tvö 10 metra fjarskiptamöstur fyrir útvarpssendingar í tilraunaskyni og lítið skýli undir tækjabúnað. Reynist staðsetningin vel er ráðgert að reisa þarna 40 metra hátt mastur.

Framkvæmt var á grundvelli framkvæmdaleyfis frá Reykjavíkurborg en framkvæmdir, sem hófust í síðustu viku, voru stöðvaðar af borginni eftir að íbúi í nágrenninu gerði athugasemdir.

Neðri hlíðar Úlfarfells eru hluti af útivistar- og skógræktarsvæðinu Græna treflinum en efri hlíðar eru skilgreindar sem opið svæði. Í bréfi Skipulagsstofnunar til borgarinnar 18. ágúst í fyrra kemur fram að stofnunin telji að vinna þurfi deiliskipulagstillögu vegna framkvæmdanna og einnig að Reykjavíkurborg þurfi að taka afstöðu til þess hvort bygging mastranna feli í sér breytingu á aðalskipulagi.

Ólöf Örvarsdóttir, skipulagsstjóri Reykjavíkurborgar, segir að útgefið framkvæmdaleyfi vegna lagna í jörðu byggi aðallega á stefnumörkun í Aðalskipulagi Reykjavíkur og þurfi því ekki að afla meðmæla vegna þeirra framkvæmda. Það hafi þó verið gert þegar fyrir lá umsókn um víðtækari framkvæmdir þ.m.t. byggingu 30,5 metra fjarskiptamasturs. Eftir að ný umsókn barst, sem eingöngu fjallaði um lagnir í jörðu, hafi ekki verið óskað eftir meðmælum. Verið sé að fara yfir málið hjá skipulags- og byggingarsviði, í ljósi athugasemda, og á meðan hafi framkvæmdir verið stöðvaðar til bráðabirgða.

Ekki lagt í veginn

Lengi hefur legið vegur upp á tindinn og þegar gengið er þangað upp vekur athygli að þeir sem standa að framkvæmdunum - og borgin sem leyfði þær - skuli ekki láta leggja strenginn í veginn, í stað þess að grafa skurð í tindinn. Að sögn Hrannars Péturssonar, framkvæmdastjóra samskiptasviðs Vodafone eru tvær ástæður fyrir því. Annars vegar yrði dýrara að leggja strenginn í veginn heldur en að plægja hann niður í svörðinn og hins vegar hafi álitamál um eignarhald á landinu undir veginum átt sinn þátt í að sú leið var ekki talin hentug.

Sá sem gerði athugasemdina sem varð til þess að framkvæmdir voru stöðvaðar var Ingimundur Stefánsson, íbúi í Úlfarsárdal og fyrrverandi formaður íbúasamtaka hverfisins.

Ingimundur segir að vinnubrögð borgarinnar, að veita framkvæmdaleyfi án meðmæla Skipulagsstofnunar, gangi að sjálfsögðu ekki. Hinn rétti farvegur væri að leggja fram tillögu að deili- eða aðalskipulagi og þá gæti almenningur og hagsmunaaðilar komið sínum sjónarmiðum að. Ingimund grunar raunar að ástæðan fyrir því að ekki var lögð fram skipulagstillaga að þessari framkvæmd sé sú að hætt sé við að hún yrði umdeild og að margir myndu gera athugasemdir. „Mín persónulega skoðun er sú að þetta rýri útivistargildi svæðisins,“ segir hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert