Arkitektúr.is átti vinningstillöguna

Tölvuteikning af vinningstillögu að byggingu fyrir fyrir Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur …
Tölvuteikning af vinningstillögu að byggingu fyrir fyrir Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum

Arkitektastofan Arkitektúr.is varð hlutskörpust í hönnunarsamkeppni um byggingu fyrir alþjóðlega tungumálamiðstöð Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum á Hugvísindasviði Háskóla Íslands.

Að vinningstillögunni standa Gunnlaugur Magnússon, Haraldur Örn Jónsson, Hjalti Parelius, Hjörtur Hannesson og Kristján Garðarsson.

Í umsögn dómnefndar um tillöguna segir að hún sé heillandi, fáguð og hnitmiðuð. „Tillagan leysir afbragðsvel þær forsendur sem lagt var upp með og er hvort tveggja í senn snjöll og öguð. Forsögn er leyst á útsjónarsaman hátt en helstu kostir tillögunnar eru ágæt tengsl við umhverfið og góð innbyrðis tengsl í byggingunni. Innri rými hverfast um opið miðrými sem tengir allar hæðir hússins og eru góð sjónræn tengsl á milli hæða.

Lóðréttu umferðarleiðirnar, sambland af stigum og römpum, eru spennandi og gefa fyrirheit um kraftmikla og líflega starfsemi. Hugmynd um útirými sunnan við bygginguna er snjöll og er lækkun lands góð leið til að nýta neðstu hæð hússins og gæða rými þar dagsbirtu.“

Vinningshafarnir hljóta fimm milljónir króna í verðlaunafé. Önnur verðlaun komu í hlut T.ark – Teiknistofunnar Arktitektar, sem hlaut þrjár milljónir í verðlaunafé, og þriðju verðlaun hlaut Arkiteó fyrir sína hugmynd að byggingu undir stofnunina. Hlaut stofan tvær milljónir króna í viðurkenningarskyni.

Þá fengu þrjár tillögur sérstaka viðurkenningu dómnefndar, tillaga PK arkitekta ehf., tillaga VA arkitekta og tillaga Ólafar Guðnýjar Valdimarsdóttur og Björns Stefáns Valssonar.

Alls bárust 43 tillögur í samkeppnina frá níu löndum beggja vegna Atlantsála.

Byggingin undir Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum mun rísa á horni Brynjólfsgötu og Suðurgötu. Verklegar framkvæmdir hefjast á næsta ári og er gert ráð fyrir að húsið verði tekið í notkun á árinu 2014.

Fyrsti áfangi byggingarinnar verður 3.000 fermetrar að stærð auk bílageymslu og tengingar við Háskólatorg. Í deiliskipulagi er heimild fyrir allt að 7.200 fermetra byggingu á byggingarreitnum.

Í dómnefnd vegna hönnunarsamkeppninnar sátu: Inga Jóna Þórðardóttir, formaður, Auður Hauksdóttir, dósent og forstöðumaður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur, Ingjaldur Hannibalsson prófessor, Helgi Mar Hallgrímsson arkitekt og Halldór Gíslason, prófessor við Listaháskólann í Ósló.

Við verðlaunaafhendinguna á Háskólatorgi í dag var opnuð sýning á öllum tillögum sem bárust í samkeppnina og verður hún opin til 1. júní. Sýningin er á 1. hæð Háskólatorgs og er hún öllum opin.

Tölvumynd af vinningstillögunni í hönnunarsamkeppni um hús fyrir Stofnun Vigdísar …
Tölvumynd af vinningstillögunni í hönnunarsamkeppni um hús fyrir Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert