Hafna ávirðingum ráðuneytisins

Sjávarútvegsfrumvörpin eru til umræðu í atvinnuveganefnd
Sjávarútvegsfrumvörpin eru til umræðu í atvinnuveganefnd mbl.is/Rax

Deloitte hafnar öllum þeim ávirðingum sem sjávarútvegsráðuneytið setur fram í umsögn sinni um skýrslu Deloitte sem send var til atvinnuveganefndar 23. apríl sl.

 „Jafnframt hörmum við aðför sem sjávarútvegsráðherra hefur gert að Deloitte á fundum og opinberum vettvangi í tengslum við sjávarútvegsfrumvörpin.  Deloitte telur að frumvörpin um stjórn fiskveiða sem nú liggja fyrir Alþingi séu illa undirbúin og stórgölluð,“ segir í greinargerð sem Deloitte hefur sent frá sér.

„Starfsemi Deloitte byggir á trausti og áreiðanleika enda er óhæði grundvallarþáttur í starfsemi Deloitte.  Við fögnum faglegri umræðu og gagnrýni á okkar vinnu  en vísum á bug öllum dylgjum um vafasöm vinnubrögð líkt og ráðuneytið hefur haldið fram í umsögn sinni um skýrslu Deloitte.

Helsta gagnrýni ráðuneytisins hefur verið á forsendur Deloitte í útreikningum um afgerandi stærðir líkt og fjárfestingar og fjármagnskostnað.  

Ágreiningur um fjárfestingar snýst um hvort byggja eigi á gömlum óverðleiðréttum fjárhæðum frá því fyrir hrun eða raunverulegri fjárfestingarþörf sjávarútvegsins miðað við núverandi verðlag og gengi eins og Deloitte styðst við.  Til einföldunar má benda á að ekki er hægt að kaupa nýjan fjölskyldubíl í dag á sama verði og fyrir hrun. 

Í skýrslu okkar kemur skýrt fram að vaxtaálag íslenskra banka hefur hækkað undanfarin ár og gera má ráð fyrir að vextir muni hækka.  Fiskveiðistjórnunarkerfið á að gilda í áratugi og því gengur ekki að miða við stöðu vaxta á þeim tíma í fortíðinni þegar vextir og vaxtaálag voru í sögulegu lágmarki.

Deloitte telur að frumvörpin um stjórn fiskveiða sem nú liggja fyrir Alþingi séu illa undirbúin og stórgölluð.  Þetta staðfestir umsögn óháðs sérfræðihóps sem tilnefndur var af atvinnuveganefnd.  Kemst hann m.a. að þeirri niðurstöðu að í ljósi þeirra fjölmörgu ágalla sem á frumvarpinu eru, sé niðurstaðan sú að umfang gjaldtöku sé langt umfram það sem útgerðin getur staðið undir og verulegra breytinga sé þörf á aðferðafræði frumvarpsins,“ segir jafnframt í greinargerðinni.

mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert