Hjólreiðar æ vinsælli ferðamáti

Fjöldi fólks tekur þátt í átakinu Hjólað í vinnuna.
Fjöldi fólks tekur þátt í átakinu Hjólað í vinnuna. mbl.is/Ómar

Átakið Hjólað í vinnuna hefur farið vel af stað og eru kappsamir hjólreiðamenn orðnir algeng sjón, enda þátttakendurnir tæplega 10.400 talsins um land allt. „Þátttakan er betri en á sama tíma í fyrra og þar sem hægt er að skrá sig til 29. maí er sífellt að bætast í hópinn,“ segir Kristín Lilja Friðriksdóttir, verkefnisstjóri almenningsíþróttasviðs ÍSÍ.

Þátttakendur nú eru 200 fleiri en á sama tíma í fyrra en Kristín segist vonast til að í lok átaksins verði heildarfjöldinn kominn í 11.500. „Hann var rúmlega 11.200 í fyrra og okkur langar að bæta um betur.“ Þátttakan hefur heldur betur aukist frá því átakið var fyrst haldið árið 2003. Þá hjóluðu 533 í vinnuna og er bætingin því rúm 2000%.

Hún segir hjólreiðar almennt vera að sækja í sig veðrið. „Með þessu átaki og mikilli vitundarvakningu um umhverfi, heilsu og hagkvæmni er reiðhjólið að verða æ vinsælli ferðamáti. Það sýnir sig líka í því að árið 2010 gaf Reykjavíkurborg í fyrsta skipti út hjólreiðaáætlun og var það mikið til komið af því að sífellt fleiri eru að hjóla. Því fleiri, þeim mun meiri kröfur um að aðgengi sé gott og aðstæður góðar. Þetta helst allt í hendur,“ segir Kristín.

Hægt er að skoða tölfræði átaksins á heimasíðunni hjoladivinnuna.is. Fyrirtækjum er skipt í flokka eftir starfsmannafjölda og í hópi stærstu fyrirtækjanna (>800 starfsmenn) raða viðskiptabankarnir þrír sér í efstu sætin. Kristín segir verkfræðistofur einnig öflugar ásamt grunn- og leikskólum. „Það eru mikið til sömu fyrirtækin sem komast í efstu sætin ár eftir ár. Þar er andinn góður og fólk duglegt að hvetja samstarfsfélagana og er greinilegt að hvatningin skilar sér.“

Margir halda áfram að hjóla í vinnuna eftir að átakinu lýkur, enda fátt meira hressandi en hjólreiðatúr á fallegum sumardegi. „Markmiðið er að fá fólk til að byrja að hjóla í maí og þegar það sér hvað það er auðvelt þá haldi það áfram um sumarið. Fólk miklar oft hjólreiðarnar fyrir sér. Við vitum til þess að fólk hafi byrjað að hjóla í vinnuna í tengslum við átakið og síðan breyst í heilsárshjólreiðamenn,“ segir Kristín að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert