Nýir skólastjórar við þrjá grunnskóla

Nýr skólastjóri hefur verið ráðinn í Ölduselsskóla.
Nýr skólastjóri hefur verið ráðinn í Ölduselsskóla. mbl.is/Árni Sæberg

Gengið var frá ráðningum skólastjóra við þrjá grunnskóla í Reykjavík á fundi skóla- og frístundaráðs í dag. Jónína Ágústsdóttir var ráðin skólastjóri í Breiðholtsskóla, Ásta Bjarney Elíasdóttir verður skólastjóri í Húsaskóla og Börkur Vígþórsson tekur við skólastjórn í Ölduselsskóla. Alls barst fjörutíu og ein umsókn um þessar stöður, þar af tíu um stöðuna í Breiðholtsskóla, nítján í Húsaskóla og tólf í Ölduselsskóla.

Jónína Ágústsdóttir sem tekur við skólastjórn í Breiðholtsskóla hefur margþætta reynslu af kennslu og stjórnun og hefur starfað sem skólastjóri við Akurskóla í Reykjanesbæ síðastliðin sjö ár.

Ásta Bjarney Elíasdóttir nýr skólastjóri í Húsaskóla hefur starfað sem aðstoðarskólastjóri við Víkurskóla í nær sjö ár og hefur að auki langa reynslu af kennslu og skólaþróunarstarfi.

Börkur Vígþórsson, sem tekur við skólastjórn í Ölduselsskóla, hefur víðtæka reynslu af kennslu og stjórnun. Hann hefur starfað í 17 ár sem aðstoðarskólastjóri og skólastjóri, síðustu sex árin sem skólastjóri við Grandaskóla í Reykjavík.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert