330 umsagnir um rammaáætlun

Alþingi hafa borist margar athugasemdir við rammaáætlun.
Alþingi hafa borist margar athugasemdir við rammaáætlun. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Yfir 330 umsagnir hafa borist um rammaáætlun um vernd og nýtingu landsvæða á Íslandi. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, formaður umhverfisnefndar, segir mikla vinnu að fara yfir allar þessar umsagnir og sú vinna sé rétt að hefjast.

Atvinnuveganefnd og umhverfis- og samgöngunefnd héldu sameiginlegan fund í morgun um rammaáætlun, en málið er á forræði atvinnuveganefndar. Guðfríður Lilja segir að yfirferð þingnefnda yfir þetta mál sé rétt að hefjast. Aðeins sé búið að ræða við Landsvirkjun, Landvernd, Náttúrverndarsamtök Íslands, auk iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra.

Sjaldgæft er að svo margar umsagnir berist um þingmál, en þetta er þó ekki án fordæmis. T.d. komu mjög margar umsagnir um tillögur stjórnlagaráðs.

Margar umsagnirnar eru efnislega samhljóða. Flestir sem skrifað hafa nefndinni gagnrýna fyrirhugaða orkunýtingu í Eldvörpum og Sveifluhálsi. Einnig er í mörgum umsögnunum hvatt til þess að stuðst verði við upprunalega flokkun virkjanakosta eins og hún kom frá verkefnisstjórn, en ekki þá röðun sem tillaga iðnaðarráðherra gerir ráð fyrir.

Ekkert liggur fyrir um hvenær þingnefndir ljúka umfjöllun um rammaáætlun, en þetta er eitt þeirra mála sem ríkisstjórnin leggur áherslu á að verði kláruð fyrir þinglok í vor.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert