Önnur vél er til reiðu í Keflavík

Flugvélar við landganginn í Leifsstöð
Flugvélar við landganginn í Leifsstöð mbl.is/Hilmar Bragi

„Þetta hefur gengið vel eins og að var stefnt og við munum bjóða upp á það að fólk haldi áfram ferð sinni,“ segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, um öryggislendingu Boeing-farþegaþotunnar í Keflavík í kvöld.

Önnur vél er til taks til að ljúka ferðinni, en vélin var á leið til Orlando í Bandaríkjunum þegar henni var snúið við eftir að hluti úr hjólabúnaði hennar fannst á flugbrautinni. Reyndist eitt af átta afturhjólum hennar hafa brotnað af í flugtaki.

Guðjón segir að staðan verði skoðuð núna í rólegheitunum með áhöfn og farþegum sem eru á leið frá borði. Sjálfboðaliðar frá Rauða krossinum í Reykjanesbæ eru í Leifsstöð til taks að veita þeim sem það vilja sálræna aðstoð. „Það er önnur vél til reiðu og í rauninni ekkert sem á að trufla þær áætlanir, en við munum taka stöðuna með fólkinu um borð og ákveða hvað verður gert,“ segir Guðjón.

Eftir þeim upplýsingum sem Guðjón hefur frá áhöfn flugvélarinnar héldu farþegar ró sinni. „Þetta var fyrst og fremst bara öryggisráðstöfun og flugstjórinn útskýrði það vel fyrir farþegunum um borð í vélinni. Þegar svona bregður við að það verður bilun í hjólabúnaði þá fer í gang ákveðin atburðarás og vinnubrögð sem fela í sér að kallað er á aðstoð annarra.“

Guðjón Arngrímsson.
Guðjón Arngrímsson.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert