Raunhæft að selja hluti ríkisins í bönkunum

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. mbl.is/Árni Sæberg

Raunhæft er að ríkið selji brot af hlut sínum í bönkunum til að fjármagna nýja fjárfestingaáætlun sína. Þetta er skoðun Vilhjálms Egilssonar, framkvæmdastóra Samtaka atvinnulífsins, sem er hins vegar efins um þátt veiðigjaldanna. Þá gagnrýnir hann að atvinnugreinum sé egnt hverri gegn annarri.

„Ég tel að ríkið eigi góða möguleika á að sækja 40 milljarða í eignahluti sína í bönkunum ef það á annað borð vill selja. Þá er ég ekki aðeins að tala um eignahlutina í Arion banka og Íslandsbanka.

Ég er líka að tala um Landsbankann. Ef það er á annað borð vilji fyrir því að selja þá eignahluti að þá tel ég að það sé raunhæft. Ég vek athygli á því að Landsbankinn hefur verið að undirbúa skráningu á hlutabréfamarkað. Það hefur verið stefna bankans. Í fyrra töluðu forsvarsmenn bankans um að þeir gætu verið tilbúnir í skráningu í haust. Ég myndi telja að það væri sterkasti hlutinn af þessari fjármögnunaráætlun.

Mér finnst hugmyndirnar um ráðstöfun veiðigjaldsins hins vegar veikar. Ég tel að það sé líka afar slæm stefna að stilla atvinnugreinunum svona upp hverri gegn annarri, að láta einhverjar atvinnugreinar eða byggðarlög fara að hagnast á því að skattleggja eina atvinnugrein sérstaklega. Þetta lyktar af því að það sé verið að reyna að afla bandamanna í herferð ríkisstjórnarinnar gegn sjávarútveginum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert