Réttindalausir ökumenn í vímu

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði bíl á Kringlumýrarbraut klukkan hálftíu í morgun, en bíllinn mældist á of miklum hraða. Fljótlega vaknaði grunur um að ökumaðurinn væri undir áhrifum vímuefna.

Við nánari athugun kom í ljós að maðurinn var ökuréttindalaus, en hann hafði verið sviptur réttindum. Hann var færður á lögreglustöð.

Snemma í morgun, eða um kl.5, var bíll stöðvaður í Litluhlíð í Reykjavík. Ökumaður þess bíls reyndist einnig vera próflaus. Hann er líka grunaður um að hafa verið í vímu undir stýri, auk þess sem hann var með tvo umframfarþega sem höfðu komið sér fyrir í farangursrými bílsins. Ökumaðurinn var færður á lögreglustöð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert