Ráðist á heimasíðu Landgræðslunnar

Frá höfuðstöðvum Landgræðslu ríkisins í Gunnarsholti.
Frá höfuðstöðvum Landgræðslu ríkisins í Gunnarsholti. land.is

Heimasíða Landgræðslu ríkisins hefur verið hökkuð, eins og sagt er. Þegar farið er inn á heimasíðuna birtast þar þessi skilaboð: „This site has been hacked By BROTHERS TEAM.“

Neðar á síðunni koma fram þær skýringar að síðan hafi verið hökkuð í nafni Allah og að hakkararnir séu hópur múslima. Ekki er þó greint frá því hvers vegna þeir ráðast á heimasíðu Landgræðslunnar með þessum hætti.

Þegar haft var samband við almannatengil hjá Landgræðslunni vissi hann ekki um málið, en óvenjulegt má teljast að vefsíður opinberra stofnana séu hakkaðar með þessum hætti. Ekki náðist í umsjónarmann vefmála hjá Landgræðslunni til að fá upplýsingar um málið, við vinnslu fréttarinnar.

Eins var ráðist inn á vef Krónunnar af sama hóp í dag.

UPPFÆRT KLUKKAN 19:00

Mbl.is náði tali af Óðni Burkna Helgasyni, vefstjóra Landgræðslu ríkisins. Hann sagði að búið væri að ná fyrir hökkunina og að vefsíðan væri nú virk á ný. Sagði hann að hakkararnir hefðu komist inn á síðuna og breytt einni skrá með þessum afleiðingum. Ekki hafi verið stórmál að lagfæra það.

Aðspurður um varnir heimasíðunnar sagði hann að farið yrði yfir málin á fundi á morgun til að reyna að fyrirbyggja slíkar árásir.

Hann sagði ekki algengt að ráðist væri með þessum hætti á opinberar vefsíður og sagðist ekki vita um ástæður þess, en að líkast til vildu hakkararnir ná athygli út á þetta.

Heimasíða Krónunnar var ekki komin í lag um sjöleytið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert