Sambland ösku- og sandfoks

„Þetta mistur sem var í gær var upprunnið á Suðurlandi. Þetta er sambland af öskufjúki úr síðustu eldgosum og sandfoki af söndunum eins og Landeyjasandi, sem er þekkt að vorlagi,“ segir Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur, um mistur sem var um allt sunnan- og suðvestanvert landið í gær.

„Svo er auðvitað heilmikið af fínu efni enn á Markarfljótsaurunum sem fer af stað við lítinn vind og það var um miðjan dag í gær að veðurstöðvarnar á Suðurlandi gáfu upp mistur. Lengst af í gærdag var til að mynda ekki nema tveggja kílómetra skyggni á Kirkjubæjarklaustri og eins var sandfok í Mýrdalnum, Vestmannaeyjum og á Eyrarbakka,“ segir Einar.

Hann segir að mistrið hafi svo náð til Faxaflóa síðdegis, en einungis sunnan Esjunnar.

Rakaprósentan einungis 40% í Fljótshlíð og á Skeiðum í gær

„Svo er líka í þessu að loftið er svo þurrt. Við erum búin að vera með heimskautaloft yfir okkur í ansi marga daga og eitt af einkennum þess er hve loftrakinn er lítill. Það var útlit fyrir að það myndi rigna um sunnanvert landið í gærmorgun, en það var nú mun minna úr þeirri úrkomu en ráð var fyrir gert. Ef það hefði vætt vel hefði það tekið fyrir þetta fok um einhvern tíma.

Sem dæmi þá var rakaprósentan á Sámsstöðum í Fljótshlíð í gær um 40% og svipað á Kálfhóli á Skeiðum. Það er frekar þurrt miðað við að það var ekki hrein norðanátt, það var austlægur vindur,“ segir Einar.

Hann segir það sjást best á því hve loftið er þurrt að dægursveiflurnar séu miklar. „Hitinn fer upp á daginn og svo eru þessi eilífu næturfrost inn til landsins. Það er einkenni sem kemur fram þegar er þurrt loft og þá vantar rakann til þess að tempra sveifluna í hitanum. Þetta verður svipað og er í eyðimerkum,“ segir Einar en tekur fram að eftir rigningarnar í vetur sé nóg vatn í jörðu, en það sé bara ekki í sverðinum heldur dýpra.

Kærkomnar breytingar í kortunum

„Svo eru kærkomnar breytingar. Það er útlit fyrir að það fari hitaskil hér yfir úr suðaustri fyrir miðja vikuna og þau fari svo norðvestur yfir landið og í kjölfar þeirra fáum við bæði hlýrra veður og heldur rakari loftmassa sem er ættaður úr suðaustri og bægir þá frá þessu heimskautalofti,“ segir Einar og telur að það veður vari að minnsta kosti fram á hvítasunnuhelgi.

„Ef þessar spár ganga eftir gæti orðið ansi vænt vorveður um næstu helgi.“

Einar segir ekki nema 1-2 sólarhringa eftir af þessum þurrki og að um leið og hitaskilin fari yfir þá væti. „Og svo verðum við undir áhrifum frá gríðarmikilli hæð, háþrýstisvæði suðaustur og austur undan. Þó að loftið verði rakara þá fylgir því ekki mikil úrkoma,“ segir Einar að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert