Ellilífeyrisaldur hækki með hærri lífaldri

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Starfshópur um lífeyrismál hefur rætt þá hugmynd að hækka ellilífeyrisaldur í takt við lengri lífaldur. Þetta segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, sem á sæti í starfshópnum.

Starfshópur sem í sitja aðilar vinnumarkaðarins og lífeyrissjóðanna hefur síðustu misseri rætt um jöfnun lífeyrisréttinda milli launafólks á almennum markaði og opinberum markaði. Gylfi segir þetta starf hafi gengið frekar hægt fyrir sig. ASÍ og Samtök atvinnulífsins hefðu náð samkomulagi um að hækka iðgjaldagreiðslur úr 12% í 15,5% á sjö árum. Vandinn væri hins vegar hallinn hjá lífeyrissjóðum opinberra starfsmanna en á honum yrði að taka í tengslum við þetta mál.

En það er fleira sem veldur lífeyrissjóðunum erfiðleikum. Skuldbindingar sjóðanna aukast þegar kaupmáttur eykst og eins vaxa skuldbindingar sjóðanna þegar meðalaldur fólks eykst. Gylfi sagði að rætt hefði verið um að hækka lífeyrisaldur samhliða því að lífaldur hækkaði. Þar með væri ekki sagt að fólk þyrfti almennt að vinna lengur því að fólk gæti notað séreignasparnað til að brúa bilið milli þess tíma sem það hættir að vinna og þar til það fer að fá ellilífeyri frá lífeyrissjóðunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert