„Getum við ekki unnið saman?“

Guðlaugur Þór Þórðarson.
Guðlaugur Þór Þórðarson. Ómar Óskarsson

„Það er vilji hjá þeim og ég skil ekki, getum við ekki unnið saman í þessu máli og ríkisstjórnin notað þau tækifæri sem hún hefur til að koma því augljósa, hagsmunum Íslands, á framfæri?“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, um Evrópureglur um innistæðutryggingakerfið á Alþingi í dag.

Guðlaugur beindi spurningum sínum til Steingríms J. Sigfússonar, efnahags- og viðskiptaráðherra, og spurði hvers vegna ríkisstjórnin hafi ekki upplýst Evrópuþingið um stöðu Íslands þegar kemur að nefndum reglum en frumvarp þess efnis liggur fyrir á Alþingi, og er um málið mikil andstaða. „Ég átti fund með formanni þeirrar nefndar sem fer með þessi mál og hann hafði skilning á stöðu Íslands og bauðst til þess að taka við erindi frá okkur um undanþágu vegna tiltekinna þátta,“ sagði Guðlaugur.

Hann sagðist hafa upplýst þáverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, Árna Pál Árnason, um fund sinn og það hafi komið honum á óvart þegar upplýst var um það í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis að tækifærið hafi ekki verið nýtt. „Af hverju er það?“

Málið reglulega borið á góma

Steingrímur sagði þessi mál hafa borið á góma í samskiptum við Evrópusambandið reglulega, meðal annars í aðildarviðræðunum í tengslum við þá kafla sem málið snerta. „Við munum þurfa að ganga frá reglum sem tryggja nægjanlega neytendavernd á fjármálamarkaði og sem stendur erum við bundin af því að notast við evrópskar reglur, nema þá að því marki að fá undanþágur.“

Hann sagði vandann liggja í því að Evrópusambandið viti ekki enn hvernig eigi að haga þessum málum og því hafi verið beðið með löggjöfina hér á landi. Því gildi sú yfirlýsing enn hér á landi að innistæður séu tryggðar, og að þær séu forgangskröfur í bú.

Guðlaugur taldi misskilnings gæta hjá ráðherranum um málið. Evrópuþingið væri að véla um málið og þegar hann talaði við þingmenn þar hafi þeir verið sammála um að það fyrirkomulag sem liggi fyrir í drögum henti ekki fyrir Ísland. „En þeir spurðu hvers vegna enginn hefði upplýst þá um þetta. Það hefur enginn upplýst þá um stöðu Íslands. Ég veit það því ég talaði við flesta þingmenn í þessari nefnd.“

Steingrímur sagðist að endingu vera sammála Guðlaugi um mikilvægi þess að öll tækifæri séu notuð og allir farvegir til að koma á framfæri sérstöðu Íslands. Það hafi hins vegar dregist mjög að skýra út í hvaða niðurstöðu stefndi í málinu hjá Evrópusambandinu. Það séu upplýsingar sem fáist hjá sérfræðingum ráðuneytisins sem vakta málið.

Steingrímur J. Sigfússon
Steingrímur J. Sigfússon Sigurgeir Sigurðsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert