Gunnar Birgisson greiði sekt

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt Gunnar Birgisson og Sigrúnu Ágústu Bragadóttur til að greiða hvor um sig 150 þúsund krónur í sekt fyrir að hafa sem stjórnarformaður og framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs Kópavogs gefið Fjármálaeftirlitinu rangar upplýsingar.

Í málinu voru auk Gunnars og Sigrúnar ákærð Ómar Stefánsson, Flosi Eiríksson, Jón Júlíusson og Sigrún Guðmundsdóttir. Þau eru hins vegar sýknuð af öllum sakargiftum.

Ákært var fyrir að ávaxta fé Lífeyrissjóðs Kópavogs með ólögmætum hætti með því að lána í formi peningamarkaðslána og með því að blekkja FME með bréfi sem stjórn sjóðsins sendi stofnuninni þar sem því var lýst yfir að fjárfestingar sjóðsins samrýmdust 36. gr. laga nr. 129/1997 þrátt fyrir að sjóðurinn hefði veitt Kópavogsbæ peningamarkaðslán.

Hvað varðar fyrri liðinn taldi dómurinn að ákæruvaldinu hefði ekki tekist að sýna fram á svo hafið væri yfir skynsamlegan vafa að stjórn lífeyrissjóðsins hafi verið óheimilt að ávaxta fé lífeyrissjóðsins með lánveitingum til Kópavogsbæjar í formi peningamarkaðslána. Voru þau því sýknuð af refsikröfunni.

Aðrir vissu ekki af yfirlýsingunni

Í öðrum ákærulið var stjórnarmönnum gefið að sök brot gegn 1. mgr. 146. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með því að hafa gefið FME upplýsingar sem hafi verið rangar, þegar þau í greinargerð lífeyrissjóðsins til FME hinn 15. janúar 2009, sem undirrituð var af Gunnari og Sigrúnu Ágústu, „lýstu því yfir að ljóst væri að fjárfestingar lífeyrissjóðsins samrýmdust 36. gr. laga nr. 129/1997, þrátt fyrir að lífeyrissjóðurinn hefði 6. janúar 2009 veitt Y peningamarkaðslán að fjárhæð kr. 330.000.000 sem var í andstöðu við heimildir 1. mgr. 36. gr. laga nr. 129/1997.“

Ágreiningur var um það hvort lífeyrissjóðnum hafi í greinargerð sinni borið að gefa upp stöðu sjóðsins miðað við áramót eða 15. janúar 2009. Stjórnarmennirnir héldu því fram að miða hafi átt við áramótastöðuna og samkvæmt henni hafi greinargerðin verið rétt. Dómurinn taldi hins vegar miða bæri við stöðu sjóðsins 15. janúar 2009, en ekki áramótin.

„Það var hins vegar ekki gert og í greinargerð sjóðsins var í engu getið láns sem [Kópavogsbæ] var veitt 6. janúar 2009 að fjárhæð 330 milljónir króna. Með þessari lánveitingu voru fjárfestingar sjóðsins ekki innan heimilda 36. gr. laga nr. 129/1997, nánar tiltekið 3. og 5. mgr. 36. gr. laganna. Yfirlýsingin í greinargerð lífeyrissjóðsins til FME 15. janúar 2009, um að ljóst væri að fjárfestingar lífeyrissjóðsins samrýmdust 36. gr. laga nr. 129/1997, sem ákærðu [Gunnar] og [Sigrún Ágústa] undirrituðu, var því röng,“ segir í dómnum.

Aðrir stjórnarmenn héldu því fram að þeim hafi ekki verið kunnugt um þessa fullyrðingu fyrr en löngu síðar, eða 18. maí 2009. Tölvupóstsamskipti studdu það að þau hafi ekki vitað af þessari fullyrðingu þegar greinargerðin var send FME og voru þau því af þeirri ástæðu ekki sakfelld fyrir að veita FME rangar upplýsingar.

Málskostnaður upp á 8.097.888 krónur

Töluverðan málskostnað leiddi af málinu og var Gunnari gert að greiða 1/5 af 1.506.000 króna þóknun verjanda síns og Sigrún Ágúsa 1/5 af 1.506.000 króna þóknun verjanda síns.

Málskostnaður þeirra sem sýknuð voru af öllum kröfum nam 5.085.888 og greiðist hann úr ríkissjóði eins og 4/5 hluta málskostnaðar Gunnars og Sigrúnar Ágústu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert