Kosið verði um ESB fyrir árslok

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Efna þarf til þjóðaratkvæðagreiðslu hið fyrsta, fyrir lok þess árs, um hvort þjóðin vilji ganga inn í Evrópusambandið eða ekki. Þetta er skoðun Guðfríður Lilju Grétarsdóttur þingmanns Vinstri grænna, sem lagði fram bókun á fundi utanríkismálanefndar í morgun um málið. Þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í nefndinni tóku undir.

Guðfríður Lilja bendir á að aðildarferli Íslands að ESB hefur dregist á langinn og fyrirsjáanlegt sé að það dragist enn verði ekkert að gert. Þessi vegferð dragi athygli og orku frá aðkallandi verkefnum og tefji bæði og takmarki þróun annarra valkosta við endurreisn íslensks samfélags. Þetta segir Guðfríður Lilja bæði áhættu- og kostnaðarsamt fyrir þjóðarbúskapinn.

Vilja utanríkisráðherra á fund

„Þær fórnir sem aðildarferlið krefst, sundurlyndið sem það myndar, athyglin sem það dregur frá öðrum valkostum og ringulreiðin innan Evrópusambandsins eru allt röksemdir fyrir því að gera þjóðinni kleift hið fyrsta að koma að málinu,“ segir í bókun Guðfríðar Lilju. 

Hún segir rangt að halda því fram að ekki liggi nægar upplýsingar fyrir. Áskorunin sé að koma upplýsingunum til skila. „Forsendur fyrir hvert mannsbarn til upplýstrar ákvörðunartöku um aðild að ESB liggja fyrir,þ að sem vantar er viljinn til að sú ákvörðunartaka megi fara fram.“ Guðfríður Lilja hvetur til þverpólitískrar samstöðu um þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir árslok.

Undir þetta tóku þau Bjarni Benediktsson og Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmenn Sjálfstæðisflokks, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Gunnar Bragi Sveinsson þingmenn Framsóknarflokks. Í bókun frá þeim er lagt til að í ljósi andstöðu meirihluta nefndarinnar við aðildarferlið komi utanríkisráðherra á fund hennar til að fara yfir málið og Alþingi taki það í framhaldinu til umfjöllunar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert