Krafist þingrofs og kosninga

mbl.is/Hjörtur

Hafin hefur verið undirskriftasöfnun á netinu þar sem lýst er vantrausti á ríkisstjórnina og þess krafist að þing verði rofið og boðað verði til alþingiskosninga.

Á vefsíðunni www.kjosendur.is þar sem söfnunin fer fram er skorað á Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra „að ganga til fundar við forseta Íslands og biðjast lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt eigi síðar en tveim vikum eftir afhendingu þessarar áskorunar.“

Þá segir að verði forsætisráðherra ekki við áskoruninni sé skorað Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, að rjúfa þing og boða til kosninga í samræmi við 24. grein stjórnarskrárinnar.

Aðspurð segir Ásta Hafberg, einn af aðstandendum undirskriftasöfnunarinnar, að engin samtök eða stjórnmálaflokkar standi á bak við söfnunina heldur einungis einstaklingar úr grasrótinni. Hún segir ennfremur að ástæður þeirra sem standa að framtakinu fyrir því að vilja þingrof og kosningar séu ólíkar.

Þannig leggi sumir megináherslu á að ekki hafi verið tekið á vanda heimilanna líkt og hún sjálf, aðrir horfi til þess að stjórnarskrármálinu hafi verið klúðrað og enn aðrir á það að ekkert raunverulegt uppgjör hafi átt sér stað eftir bankahrunið. Eins skrifi þeir sem taki þátt í undirskriftasöfnuninni undir á sínum eigin forsendum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert