Skrifuðu ekki undir með eigin hendi

Bessastaðir og Hallgrímskirkja.
Bessastaðir og Hallgrímskirkja. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Þegar að við erum að votta kosningabærni meðmælenda sem að okkur ber að gera samkvæmt lögum þá förum við fram á frumritin [af meðmælendalistunum] einmitt til þess að geta gengið úr skugga um svona atriði,“ segir Katrín Theodórsdóttir, annar oddviti yfirkjörstjórna Reykjavíkurkjördæma norður og suður, en eins og greint var frá á mbl.is í gær þá leikur grunur á um að einhver nöfn á meðmælendalistum Ástþórs Magnússonar hafi verið skráð þar án vitundar viðkomandi einstaklinga.

Samkvæmt 4. gr. laga nr. 36/1945 um framboð og kjör forseta Íslands skal framboðum til forsetakjörs skilað í hendur ráðuneytis ásamt samþykkis forsetaefnis, nægilegum fjölda meðmælenda og vottorðum frá yfirkjörstjórnum um að meðmælendurnir séu kosningabærir, eigi síðar en fimm vikum fyrir kjördag. Að sögn Katrínar er tvennt sem þarf að kanna áður en listarnir eru vottaðir en það er annars vegar hvort að viðkomandi meðmælandi sé kosningabær, þ.e. orðinn 18 ára, og hinsvegar hvort hann hafi mælt með fleirum en einum frambjóðanda.

Katrín segir að við þessa meðferð hafi komið í ljós að líkur séu á því að einn listinn hafi verið skrifaður með sama penna. „Það er það fyrsta sem maður fer að kanna og þá hugsar maður: vá, bíddu nú við, hvernig stendur á þessu?,“ segir Katrín og bætir við: „Svo leiðir eitt af öðru og þá hefur komið í ljós að það er þarna ótiltekinn fjöldi einstaklinga sem er á listum án þess að hafa skrifað með eigin hendi undir.“

Hún bendir einnig á að líkur séu á því þessar undirskriftir hafi verið ritaðar niður af sama aðilanum. „Þá er einhver sem hefur verið á vegum þessa frambjóðanda sem að tekur að sér að safna, eins og gengur og gerist, og hann virðist gera það með þessum hætti,“ segir Katrín.

Katrín Theodórsdóttir.
Katrín Theodórsdóttir. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert