Fréttaskýring: Verkföll ítrekað stöðvuð með lögum

Sjómenn komu saman á mótmælafund við Alþingi í maí 2001 …
Sjómenn komu saman á mótmælafund við Alþingi í maí 2001 til að lýsa andstöðu við afskipti stjórnvalda af kjarabaráttu. mbl.is/Jim Smart

Vaxandi spenna virðist vera í kjaraviðræðum fiskimanna og útvegsmanna eftir tiltölulega friðsöm samskipti við samningaborðið frá 2004. Áður höfðu verið hatrömm átök í áratug og ríkisvaldið ítrekað stöðvað með lögum verkföll og verkbönn sem stöðvað höfðu meginhluta fiskiskipaflotans.

Lengsta sjómannaverkfallið var vorið 2001. Þá fóru helstu samtök sjómanna í verkfall og útvegsmenn settu jafnframt á verkbann. Aðgerðirnar stóðu til 16. maí að ríkið greip inn í deiluna með lagasetningu. Verkfallið hafði þá staðið í sjö vikur samtals. Raunar höfðu vélstjórar samið við útvegsmenn áður en til þess kom.

Lagasetningin var rökstudd með því að vinnustöðvunin hefði valdið miklum skaða fyrir atvinnulíf landsmanna, nýtingu auðlinda sjávar og útflutningshagsmuni. Alvarlegustu áhrifin voru fyrir einstaklinga sem störfuðu við fiskvinnslu og fyrirtæki og sveitarfélög sem byggðu atvinnu sína á sjávarútvegi en hefði einnig áhrif langt út fyrir þá hagsmuni sem samningsaðilar fjölluðu um. Skýr merki voru sögð um neikvæð áhrif vinnustöðvunarinnar á efnahagslíf landsins og ef ekki yrði gripið inn í málið myndi hún valda óbætanlegu tjóni fyrir þjóðarbúið í heild.

Tímamótasamningar 2004

Í tvo áratugi voru kjarasamningar sjómanna yfirleitt lausir, nema þegar þeir voru bundnir af lagaákvæðum. Það breytti ekki öllu um kjör sjómanna sem að stórum hluta ráðast af markaðsverði afurðanna. Ýmis réttindamál sátu þó eftir.

Næst á undan verkfallinu mikla var þriggja vikna verkfall í febrúar og mars 1998. Sett voru lög á það þar sem miðlunartillaga ríkissáttasemjara var lögfest sem kjarasamningur. Í þeirri vinnudeilu og styttri verkföllum 1994 og 1995 var mest deilt um viðskipti með afla og tengsl þeirra á skiptakjör. Í tengslum við þessa lagasetningu voru samþykkt á Alþingi lög um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna, í þeim tilgangi að draga úr líkum á ágreiningi af þessu tagi.

Stéttarfélög fiskimanna og útvegsmenn hafa tvisvar gert kjarasamninga frá því gerðardómurinn eftir langa verkfallið 2001 féll úr gildi. „Tímamótasamningur“ var einkunnin sem Árni Bjarnason, forseti Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, gaf samningunum 2004. Sjómenn náðu fram réttinda- og kjaramálum og útgerðarmenn fengu visst svigrúm til að breyta mönnun fiskiskipanna og hlutaskiptum. Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, sagði eftir undirritun að mestu skipti að samningurinn væri vegvísir inn í framtíðina í samskiptum sjómanna og útvegsmanna og vonandi væru tímar vinnudeilna og verkfalla til sjós liðnir.

Samskiptin við samningaborðið hafa gengið betur síðan. Aftur var samið 2009. Þótt samningar hafi ekki verið í gildi frá 1. janúar á síðasta ári, eða í tæpa sautján mánuði, hefur tvisvar verið samið sérstaklega um hækkun kauptryggingar og kaupliða, til samræmis við breytingar á vinnumarkaði.

Nú krefjast útvegsmenn á ný breyttra skipta vegna aukins kostnaðar sem lagður hefur verið á útgerðina. Óvissan í lagaumhverfi sjávarútvegsins auðveldar heldur ekki samningsgerð. Deilan er komin til ríkissáttasemjara.

Kjaradeilur á sjó

» Janúar 1994: Sjómenn, vélstjórar og yfirmenn hefja allsherjarverkfall. Samningaumleitanir reynast árangurslausar. Ríkistjórnin stöðvar verkfallið með bráðabirgðalögum eftir 12 daga.
» Maí-júní 1995: Verkfall hefst. Sjómenn fella miðlunartillögu. Samningar takast eftir 22 daga.
» Febrúar-mars 1998: Sjómenn hefja verkfall 2. febrúar. Því er frestað 11. febrúar en tekur gildi á ný 15. mars. Útvegsmenn fella miðlunartillögu sáttasemjara en með lögum sem taka gildi 27. mars er tillagan lögfest. Verkfall í þrjár vikur.
» Apríl-maí 2001: Helstu samtök sjómanna fara í verkfall 16. mars en fresta aðgerðum til 1. apríl að verkfall hefst á ný. Útvegsmenn setja á lögbann. Lög eru sett á verkföll og verkbönn 16. maí og gerðardómi falið að ákvarða kjör sjómanna. Vinnustöðvun stóð alls í sjö vikur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert