Harma óvæginn fréttaflutning

mbl.is/Heiddi

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur leggur ríka áherslu á að mótuð verði vöktunar- og viðbragðsáætlun vegna umhverfismála á svæðinu í grennd við Hellisheiðarvirkjun. Stjórnin harmar jafnframt óvæginn fréttaflutning um tjarnarmyndun í grennd við svæðið.

Þetta kemur fram bókun stjórnar OR frá því í dag, en hún er svohljóðandi:

„Fjölmiðlaumfjöllun undanfarið um tjarnarmyndun í grennd við Hellisheiðarvirkjun sýnir að nýting jarðvarma er flókið og vandasamt viðfangsefni sem getur haft margvísleg vandamál í för með sér. Þar sem oft þarf að bregðast fyrirvaralítið við uppákomum í kjölfar nýtingarinnar er nauðsynlegt að vera stöðugt á varðbergi og gæta ítrustu varúðar. Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur leggur ríka áherslu á að mótuð verði vöktunar- og viðbragðsáætlun vegna umhverfismála á svæðinu.

Stjórnin harmar jafnframt óvæginn fréttaflutning vegna málsins, enda ljóst að aldrei vakti fyrir starfsfólki fyrirtækisins að villa um fyrir fjölmiðlum eða almenningi heldur voru þær upplýsingar sem gefnar voru í upphafi málsins veittar með fyrirvörum um að málið hefði ekki verið skoðað í þaula - og voru leiðréttar um leið og skoðun leiddi annað í ljós.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert