Segir vaxandi stuðning við Kanadadollar

Kanadadollari. Úr myndasafni.
Kanadadollari. Úr myndasafni. Reuters

„Þetta er rætt í alvöru á Íslandi. Efnahagsráðherrann fór til Kanada fyrir sex vikum og fundaði með kanadíska seðlabankanum og með þingmönnum og að ég tel fjármálaráðuneytinu líka. Hann kom síðan aftur til Íslands og sagði opinberlega að þetta væri möguleiki sem væri ekki hægt að útiloka og að skoða ætti möguleikann á gagnkvæmu bandalagi.“

Þetta segir Heiðar Már Guðjónsson, fjárfestir, í viðtali við bandaríska viðskiptavefinn Business Insider í dag aðspurður um það af hve mikilli alvöru sé rætt um það á Íslandi að taka upp kanadíska dollarann í stað íslensku krónunnar.

Heiðar segir ennfremur vaxandi stuðning í viðskiptalífinu á Íslandi við að taka upp kanadíska dollarann vegna gjaldeyrishaftanna sem séu að ganga að efnahagslífinu dauðu. Hann segir aðspurður styðja hugmyndina vegna þess að það sé engin fullkomin lausn til staðar og enginn fullkominn gjaldmiðill.

Ísland þurfi á lausn að halda innan eins til tveggja ára. Stuðla þurfi að innflæði fjármagns til þess að standa undir skuldbindingum landsins. Að öðrum kosti gæti Ísland staðið frammi fyrir mögulegu greiðsluþroti árið 2016.

Aðspurður hvers vegna hann vilji frekar kanadíska dollarann en evruna eða bandaríkjadal segir Heiðar að vandinn við evruna sé einkum sá að Evrópusambandið vilji ekki að ríki taki hana upp einhliða og ástandið í efnahagsmálum evrusvæðisins.

Hvað bandaríkjadal varðar sé hagkerfi Bandaríkjanna einfaldlega allt of stórt. Ísland eigi meira sameiginlegt með Kanada, bæði menningarlega og efnahagslega, og að auki vilji hann meina að kanadískt efnahagslíf sé í betra ásigkomulagi en það bandaríska.

Viðtalið við Heiðar Má Guðjónsson í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert