Skoða leiðir um afnám hafta með ESB

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn

Forsætisráðherra segir að stjórnvöld séu að skoða leiðir til að flýta afnámi gjaldeyrishaftanna í samstarfi við Evrópusambandið. Jóhanna Sigurðardóttir ræddi málið við Stefan Füle, stækkunarstjóra ESB, í gær og segist hafa fengið jákvæð viðbrögð. Hún tekur fram að ekkert formlegt samkomulag hafi verið gert.

Hún segir að þetta sé hluti af aðildarviðræðum Íslands að ESB. Meðal þess sem verið sé að ræða er hvort ESB geti veitt Íslandi sérfræðiaðstoð til að flýta afnámi haftanna, sem sé eitt af brýnustu málum þjóðarinnar Þessu fylgi engin skilyrði af hálfu ESB.

Þetta kom fram í svari forsætisráðherra við fyrirspurn Bjarna Benediktssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. Bjarni vildi m.a. fá svör við því hvort búið væri að gera sérstakt samkomulag við ESB í tengslum við málið. Hann spurði um hvað væri verið að semja og hverjir væru aðilar að þeim samningi.

„Það hefur ekkert verið formgert fast í þessu efni. Þetta er auðvitað hluti af okkar aðildarviðræðum, ef það má vera til þess að hjálpa okkur að losa um gjaldeyrishöftin að leita allra leiða í því sambandi. Það hefur m.a. komið til tals sérfræðiþekking í þeim samtölum sem hafa farið fram um þetta efni. Ég átti t.d. samtöl í gær við Stefan Füle, stækkunarstjóra bandalagsins, þar sem þessir hlutir komu upp. Og það kom fram mjög jákvæður vilji af hans hálfu til þess að skoða með okkur allar leiðir sem væru færar í þessu efni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert