Spyr um viðbragðáætlun stjórnvalda

Evran siglir ólgusjó um þessar mundir.
Evran siglir ólgusjó um þessar mundir. Reuters

Illugi Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, lagði í gærkvöldi fram skriflega fyrirspurn til Steingríms J. Sigfússonar, efnahags- og viðskiptaráðherra, vegna mögulegrar útgöngu Grikklands úr evrusamstarfinu og undirbúning stjórnvalda þess vegna.

Í greinargerð með fyrirspurninni segir að færð hafi verið fyrir því rök, að með útgöngu Grikklands úr evrusamstarfinu kynni grundvöllur samstarfsins að bresta með skelfilegum afleiðingum fyrir hagkerfi ríkja Evrópu, að minnsta kosti til skemmri tíma litið.

Einnig að þó ekki kæmi til slíkra atburða myndi útgangan veikja hina sameiginlegu mynt og valda mikilli spennu í hagkerfum ríkja á borð við Spán og Ítalíu, sem og fleiri landa. „Viðskiptakjör Íslendinga mundu án vafa versna mjög þar sem um er að ræða helstu viðskiptalönd okkar. Nauðsynlegt er að fyrir liggi áætlun stjórnvalda um til hvaða aðgerða verði gripið í kjölfar alvarlegra atburða í efnahagslífi Evrópu.“

Því spyr Illugi hvaða undirbúningur hafi farið fram hjá stjórnvöldum, hvaða vinnuhópar stofnaðir og hvernig samráði við Seðlabanka Íslands sé háttað.

Stutt er síðan Illugi spurði Steingrím út í málið á Alþingi í óundirbúnum fyrirspurnartíma. Þá sagði ráðherrann að ríkisstjórnin og ráðherranefndir fylgist grannt með vandamálum í Evrópu og rædd hafi verið viðbrögð við því ef evrusamstarfið flosnar upp. Reynt sé að undirbúa landið undir ófyrirsjáanlega atburði en ekki sé hægt að sjá fyrir hversu víðtæk áhrifin yrðu ef staðan versnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert