Bryan Ferry lendir

Bryan Ferry á tónleikum
Bryan Ferry á tónleikum AP

Söngvarinn Bryan Ferry lendir í Keflavík nú síðdegis. Að sögn Steinþórs Helga Arnsteinssonar dvelst Ferry hér fram á þriðjudag og hlakkar mikið til að sækja landið heim.

„Hann er ósköp rólegur, ætlar að skoða listasöfnin og svona“ svarar Steinþór aðspurður um hvað leikarinn hyggist fyrir meðan á dvöl hans hér á landi stendur. Ferry heldur tvenna tónleika í Eldborgarsal Hörpu um hvítasunnuna, á sunnudag og mánudag. Fljótlega eftir komuna til landsins sækir söngvarinn Bessastaði heim en forsetinn býður ávallt til móttöku í tengslum við Listahátíð.

Umfangsmiklir tónleikar

Að sögn Steinþórs verða tónleikar Ferry stærstu tónleikar erlends dægurtónlistarmanns í Eldborgarsal Hörpu frá opnun og fylgir þeim mikið umstang. Um þrjátíu manna fylgdarlið er í för með söngvaranum og barst gámur með tækjum og tólum til tónleikahaldsins fyrr í vikunni. Aðspurður um kröfur Ferrys um búnað baksviðs segir Steinþór söngvarann ekki mjög kröfuharðan miðað við það sem gengur og gerist. „Hann bað um að kampavín og nuddari væru til taks.“

Tónlistarferill Bryans Ferrys spannar rúma fjóra áratugi en á tónleikunum í Reykjavík mun söngvarinn leika lög frá ýmsum tímabilum ferils síns, bæði af sólóbreiðskífum sem og ferlinum með hljómsveitinni Roxy Music. Meðal laga sem Roxy Music gerði ódauðleg má nefna „Virginia Plain“, „Jealous Guy“, „More than This“ og „Avalon“.

Gestur Listahátíðar og Mandela Days Reykjavík

Auk þess að koma fram á Listahátíð í ár kemur Ferry einnig til landsins sem fyrsti gestur mannúðarframtaksins Mandela Days Reykjavík, sem blásið er til í samstarfi við Nelson Mandela Foundation, til vitundarvakningar og stuðnings mannúðarsjónarmiðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert