Meistari í bílasmíði fyrst kvenna á Íslandi

Anna Kristín á leið í útskriftina í gær.
Anna Kristín á leið í útskriftina í gær. AKG

Útskriftir úr hinum ýmsu skólum fara fram þessa dagana. Ein þeirra sem voru að ljúka námi er Anna Kristín Guðnadóttir, 24 ára, en hún lauk meistaraprófi í bílasmíði frá Tækniakademíu Tækniskólans í gær fyrst kvenna á Íslandi svo vitað sé.

„Áhuginn hafði alltaf blundað í mér,“ segir Anna í samtali við mbl.is. „Ég kláraði stúdentsprófið og var ekki alveg viss um hvað ég ætti að gera í framhaldinu, svo ég ákvað bara að skella mér í þetta“. Anna lauk sveinsprófinu árið 2010 og hélt þá beint áfram í meistaranámið. 

Anna er svo vitað sé fyrsta konan til að ljúka umræddu námi. Ekki er vitað af mörgum konum sem að starfa við bílgreinar á landinu en þær er þó nokkrar. Að sögn Önnu starfa nokkrar við bílamálun, hún er ein í bílasmíðinni og þá eru nokkrar í bifvélavirkjun.

Þægilegt að vinna með strákunum

Anna starfar sem stendur hjá GB tjónaviðgerðum þar sem hún kemur að ýmiskonar verkefnum á sviði viðgerða á tjónabílum. Felast dagleg störf m.a. í að skipta um stuðara, rétta við hurðir og skipta um framrúður auk annars. Ein önnur kona starfar að viðgerðum hjá fyrirtækinu en sú er bílamálari. Aðspurð hvernig gangi að starfa annars eingöngu með körlum segir Anna það ekkert mál.

„Það er mjög þægilegt að vinna með strákunum.“ Spurð hvort hún hafi orðið vör við einhverja fordóma segir hún það lítið. „Það var kannski aðeins í byrjun, þegar maður var að sækja um vinnu sem nemi, en var fljótt að hverfa þegar maður byrjaði að vinna.“ Anna er reyndar ekki bara í bílunum en þessa dagana leggur hún einnig stund á förðunarfræði við Fashion Academy í Reykjavík.

Ekki er hægt að ljúka viðtali við nýútskrifaðan meistara í bílasmíði án þess að spyrja hvernig bíl hún eigi. „Ég á '85-árgerð af Volkswagen Golf blæju. Ég gerði hann upp sjálf þegar ég var nemi. Hann gengur eins og smurður, var á sýningu hjá Fornbílaklúbbnum síðustu helgi.“

Hópur iðnmeistara sem að útskrifaðist frá Tækniakademíu Tækniskólans í gær.
Hópur iðnmeistara sem að útskrifaðist frá Tækniakademíu Tækniskólans í gær. AKG
Volkswagen Golf ´85 sem að Anna gerði upp sjálf.
Volkswagen Golf ´85 sem að Anna gerði upp sjálf. Sæmundur Eric Erlendsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert