Rík þjóð sem aldrei á pening

Guðmundur Steingrímsson, alþingismaður.
Guðmundur Steingrímsson, alþingismaður. mbl.is/Ómar

„Við erum rík þjóð. En það er samt eins og við eigum aldrei peninga,“ sagði Guðmundur Steingrímsson, utan flokka, við eldhúsdagsumræður á Alþingi í kvöld. Hann sagðist ekki upplifa þessa tíma sem óvissutíma.

Guðmundur sagði skuldavanda heimilanna afsprengi þessa eilífa íslenska efnahagsvanda. „Við verðum að koma á efnahagslegu jafnvægi til þess að geta haft á Íslandi eðlilegan lánamarkað.“

Þá skýrði Guðmundur fyrir hvað flokkur hans, Björt framtíð stendur, og mótmælti að hann teljist utan flokka. „Það er frjálslyndur, alþjóðlega sinnaður, grænn og síðast en ekki síst yfirvegaður og afslappaður pólitískur vettvangur. Okkur langar til þess að breyta pólitíkinni. Gera hana meira eins og lífið er annars staðar. Víða þarf fólk að taka ákvarðanir og tala saman. Og merkilegt nokk: Það gengur víða mjög vel.“

Ennfremur sagði Guðmundur að flokkspólitískur æsingur eins og ríkir of oft á Íslandi skili engu. „Hann kemur okkur bara í vont skap. Og þegar það er gott veður er fáránlegt að vera í vondu skapi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert