Upplýsingar en ekki hræðsluáróður

Magnús Orri Schram, þingflokksformaður Samfylkingarinnar.
Magnús Orri Schram, þingflokksformaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Árni Sæberg

Eitt brýnasta verkefni er að leiða til lykta viðræður um aðild að Evrópusambandinu. Það er eitt það mikilvægasta sem um getur fyrir ungt fólk enda mun þá ekki þurfa að greiða 24 milljónir fyrir 10 milljón króna lán. Þetta sagði Magnús Orri Schram, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, við eldhúsdagsumræður á Alþingi í kvöld.

„Nú sér fyrir endann á kreppunni og tími uppbyggingar er hafinn,“ sagði Magnús Orri og einnig að gott veður sé í veðurkortunum og það virðist einnig vera hægt að segja það um íslenskt atvinnulíf. Hann vísaði til að fyrir þremur árum hafi landið verið á barmi upplausnar, en rofað hafi til. Spár geri ráð fyrir þriggja prósenta hagvexti á árinu og á næsta ári verði komið jafnvægi í rekstur ríkissjóðs.

Á tímanum frá hruni hafi verið reynt að verja þá með lægstu tekjurnar, framlög til atvinnutrygginga hafi stóraukist og tekjuskattur lækkað hjá 60% launamanna. 

En ráðist hafi verið í fleiri mikilvæg mál, s.s. lýðræðisumbætur. Margoft hafi verið reynt að breyta stjórnarskránni en það hafi mætt mikilli andstöðu í þinginu. Því hafi þurft að færa það verkefni út fyrir þingið og til þjóðarinnar. „Ef Alþingi leggur ekki fleiri steina í götu næsta vetur munum við leyfa þjóðinni að kjósa um nýja stjórnarskrá samhliða næstu þingkosningum.“

ESB besta leið úr basli

Magnús Orri sagði skuldafangelsi veruleika ungs fólks sem tekið hafi stór lán fyrir íbúðakaupum. Og það hafi í raun verið veruleikinn um langt árabil, basl og meira basl. Ef ekki verði brugðist við muni ungt fólk eiga í basli um alla framtíð. Ungir Íslendingar þurfi að greiða milljónir á ári aukalega miðað við fólk á sama aldri í Evrópusambandinu.

Hann sagði að jafnaðarmenn hafi talið það bestu leiðina til að losna úr baslinu að sækja um aðild að ESB. Þó hart sé sótt að þeim sem vilja aðild muni jafnaðarmenn halda sínu striki. Íslenska þjóðin muni fá að kjósa um aðild á grundvelli upplýsinga en ekki hræðsluáróðurs og þá þegar samningur liggur fyrir. Fásinna væri að hætta viðræðum í miðjum samningaviðræðum.

Þegar Ísland er komið inn í Evrópusambandið þarf unga fólkið ekki að greiða 24 milljónir fyrir 10 milljón króna lán. Tími sé kominn til að horfa til framtíðar og bjóða upp á eitthvað annað en basl.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert