Glaðir vorvindar á stóra leikskóladeginum

Stóri leikskóladagurinn, ein fjölsóttasta fagstefna leikskólakennara hér á landi, verður haldin í húsakynnum Menntavísindasviðs HÍ við Stakkahlíð föstudaginn 1. júní frá kl. 9:00-15:00. Yfirskrift  dagsins  er Vorvindar glaðir sem vísar til þess frjómagns og krafts sem felst í metnaðarfullu fagstarfi leikskólanna.

Boðið verður upp á fjóra fyrirlestra sem fjalla um samstarf leik- og grunnskóla, foreldrasamstarf, sameiningar leikskóla, og hlutverk barnaefnis í uppeldi og menntun leikskólabarna. Þá verður sett upp sýning á því fjölbreytta fagstarfi sem fer fram í leikskólum borgarinnar og víðar. Á sýningunni verður m.a. hægt að skoða þemabundið smiðjustarf, verkefni í umhverfismennt, vinnu með einingarkubba, fjölmenningarlegt leikskólastarf,  tölvuleiki fyrir leikskólabörn sem kenna stærðfræði á fjölbreyttan hátt og á nokkrum tungumálum og hvernig unnið er með  jóga í lífsleikninámi ungra barna.

Sérstakir gestir á Stóra leikskóladeginum eru leikskólar á Akranesi sem kynna sínar áherslur í fagstarfi, s.s. á heilsu og íþróttir, útinám og  stærðfræði, segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert