Húmanistaflokkurinn með róttæk stefnumál

Húmanistaflokkurinn kynnti stefnumál sín í dag og hyggst bjóða sig …
Húmanistaflokkurinn kynnti stefnumál sín í dag og hyggst bjóða sig fram til Alþingis mbl.is/Ómar

Í dag greindi Húmanistaflokkurinn frá því að hann stefndi að þátttöku í næstu alþingiskosningum. Húmanistaflokkurinn telur að markaðs- og hagvaxtarstefnan sem ríkt hefur hér undanfarna áratugi standi ekki væntingum og þau telja að hefðbundnir stjórnmálaflokkar hafi engar úrlausnir. Þau vilja lifa í samfélagi en ekki í hagkerfi og boða því róttækar breytingar og telja ekki nóg að gera andlitslyftingu á núverandi kerfi.

Fjórða skipti í alþingiskosningum

Húmanistaflokkurinn hefur boðið fram áður í alþingiskosningum, síðast 1999, og í sveitarstjórnakosningum síðast 2002. Þá stóð flokkurinn að baki framboði Sigrúnar Þorsteinsdóttur til forseta árið 1988 gegn sitjandi forseta, Vigdísi Finnbogadóttur.

Húmanistaflokkurinn er alþjóðlegur flokkur sem starfar á Íslandi og byggir stefnu sína á mannréttindum og sjálfbærni. Í landsstjórn flokksins eru fimm manns og það eru þau Júlíus Valdimarsson, Methúsalem Þórisson, Jón Ásgeir Eyjólfsson og Sigrún Þorsteinsdóttir. Þau hyggjast kynna flokkinn á næstu mánuðum til að auka fjölda félagsmanna og ætla að bjóða fram í öllum kjördæmum. Það er óráðið hvort þau sjálf verða í framboði en það er keppikefli þeirra að það verði fólk á Alþingi sem stefnir að þeirra stefnumálum.

Þau telja að hugmyndir þeirra eigi betur upp á pallborðið núna en áður þegar þau buðu fram.  „Fólk er opið fyrir öðru og nýju núna,“ segir Júlíus Valdimarsson. „Það getur verið að þetta sé ekki rétti tíminn fyrir þessar róttæku breytingar, en það þarf að koma fram núna því hugmyndir taka tíma í framkvæmd,“ segir Sigrún Þorsteinsdóttir sem segir stefnumál þeirra nauðsynleg.

„Mörg framboð sem hafa komið fram nýlega eru að fara í sömu átt og við. Eins og Samstaða, Dögun og Björt framtíð. Þau hafa öðruvísi áherslur og mögulega önnur sjónarmið í einhverjum málum,“ bætir Júlíus við.

Þjóðaratkvæðisgreiðslur fyrir flest frumvörp

Húmanistaflokkurinn leggur mikla áherslu á lýðræði og vill að almenningur taki þátt í fjárlagagerð og ákvörðunum um ráðstöfun skattfjár á landsvísu og í sveitarstjórnum. Flokkurinn vill að sett verði lög um eignaraðild starfsmanna að fyrirtækjum og að fjölmiðlum verði gert skylt að gera öllum skoðunum jafn hátt undir höfði og tryggja kynningu framboða í kosningum með fullnægjandi hætti. Þá vilja þau að sett verði lög um pólitíska ábyrgð stjórnmálamanna þess efnis að þeir sem standa ekki við kosningaloforð sín megi eiga á hættu að missa umboð sitt.

„Við viljum að sem flest mál verði afgreidd með þjóðaratkvæðisgreiðslum sem mark er tekið á, ekki ráðgefandi þjóðaratkvæðisgreiðslur,“ segir Sigrún. Þau telja að það standi ekkert í vegi fyrir því að spyrja þjóðina um hvert einasta frumvarp sem fer í gegnum Alþingi.

Bankar án vaxta og ókeypis menntun

Um efnahagsmál og fjármálakerfið leggja þau áherslu á að fjármálakerfið verði undir stjórn ríkisins sem ákvarði peningamagn í umferð. Þau vilja stofna banka án vaxta og setja reglur sem refsa fyrir spákaupmennsku og okurvexti. Þau vilja að náttúruauðlindir verði allar í eigu þjóðarinnar og greitt verði auðlindagjald fyrir nýtingu þeirra ásamt því að sjálfbærni verði tryggð á öllum sviðum.

Þá leggur flokkurinn mikið upp úr mannréttindum og vill að öllum verði tryggð skilyrðislaus grunnframfærsla sem dugar fyrir mannsæmandi lífi og að sett verði lög um að óheimilt sé að bera fólk út af heimilum sínum. Þá vilja þau að menntun og heilbrigðisþjónusta verði ókeypis fyrir alla og af mestu gæðum.

Ísland úr NATO

Í alþjóðamálum taka þau ekki sameiginlega afstöðu til ESB og segja það eiga að vera ákvörðun þjóðarinnar og þeirri ákvörðun munu þau fylgja. Þau vilja mynda bandalag við þau þjóðríki sem skuldbinda sig til að koma á raunverulegu lýðræði og grundvallarmannréttindum. Ásamt því að ákveðið hlutfall af fjárlögum verði ætlað til þess að hjálpa illa stöddum þjóðum til að uppfylla þetta markmið. Þá vill flokkurinn að öllum kjarnorkuvopnum verði eytt án tafar og að Ísland segi sig úr NATO.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert