Sekt blaðamanns lækkuð

mbl.is / Hjörtur

Jón Bjarki Magnússon, blaðamaður á DV, hefur í Hæstarétti verið dæmdur til að greiða Kim Gram Laursen 250 þúsund krónur vegna ummæla í blaðagrein. Sektin var lækkuð um helming frá dómi héraðsdóms.

Kim Gram Laursen átti í forsjárdeilu við fyrrverandi eiginkonu sína og er dómsmál þar að lútandi rekið fyrir dönskum dómstólum. Í nóvember 2010 fjallaði DV um málið þar sem konan sakaði fyrrverandi eiginmann sinn um ofbeldi.

Laursen höfðaði mál gegn blaðamanninum Jóni Bjarka, sem skrifaði greinina, og krafðist m.a. ómerkingar ummæla sem birst höfðu í greininni. Jón Bjarki mótmælti því ekki að ummælin hefðu falið í sér ærumeiðandi aðdróttanir. Hann krafðist hins vegar sýknu á þeim grundvelli að blaðamönnum væri í vissum tilvikum heimilt að hafa ummæli eftir viðmælendum sínum og að í ljósi nýrra laga um fjölmiðla, sem tóku gildi eftir að málið var höfðað, bæri hann ekki ábyrgð á ummælunum.

Dómur Hæstaréttar er hins vegar byggður á prentlögum frá árið 1956 enda hafi þau verið í gildi þegar fréttin birtist. Jón Bjarki hafi því borið ábyrgð á ummælunum.

Það var niðurstaða Hæstaréttar að þótt ómerking ummæla á grundvelli almennra hegningarlaga teldist til refsikenndra viðurlaga væri hún í eðli sínu staðfesting á því að óviðurkvæmileg ummæli skuli vera að engu hafandi. Yrði því úrræði ekki jafnað til íþyngjandi viðurlaga á borð við réttindasviptingu. Var staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um ómerkingu ummælanna, en miskabætur lækkaðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert