Efnilegir 9 ára ökumenn

Það ríkti mikið fjör á Ingólfstorgi í dag þegar ökuþórar og áhorfendur úr fjórum félagsmiðstöðvum komu saman og kepptu sín á milli í árlegu kappakstursbílarallýi frístundaheimila Frostaskjóls og ÍTR í Reykjavík. Alls voru um 400 börn samankomin á torginu, og stemmningin var í takt við veðrið: Gríðarlega góð. Keppnin var æsispennandi og oft mjótt á munum enda keppendur og áhorfendur fullir af metnaði fyrir hönd sinnar félagsmiðstöðvar. Þátttakendur í ár komu úr Selinu við Melaskóla, Skýjaborgum við Vesturbæjarskóla, Undralandi við Grandaskóla og Frostheimum við Frostaskjól.

Börnin hafa í vor eytt miklum tíma og natni við smíðar, hönnun og skreytingar á bílunum, með hjálp frá starfsmönnum. Ekki má heldur gleyma stífum æfingum, því enginn mætir óundirbúinn í bílarallý.  Allir standa uppi sem sigurvegarar að lokum og heldur hvert frístundaheimili heim með farandbikar fyrir einn af eftirfarandi þáttum; hraðskreiðasti bíllinn; flottasti bíllinn; besta liðsheildin, snörustu starfsmennirnir, klakameistararnir og frostrósirnar.   

Svolítið stressandi

Meðal fulltrúa Frostheima í keppninni voru hinar bröttu Soffía Svanhvít Árnadóttir, Álfdís Freyja Hansdóttir og Þorbjörg Edda Valdimarsdóttir, en þær eru allar 9 ára. Blaðamaður náði tali af þeim eftir að þær höfðu att kappi við fullorðna starfsmenn félagsmiðstöðvarinnar og haft betur. „Þetta var gaman en líka svolítið stressandi,“ sögðu stelpurnar sigurreifar.

Aðspurð hvort hún hafi byggt bílinn sjálf segir Soffía Svanhvít svo ekki vera, „það var nú reyndar starfsmaður sem setti hann saman. En ég keyrði.“ Stelpurnar segjast hafa æft sig talsvert fyrir keppnina, „við æfðum okkur helling, í alveg 3 daga,“ segir Þorbjörg Edda. 

Álfdís Freyja gætti þess að vera með hjálm, enda segir hún það bráðnauðsynlegt í keppni sem þessari, „maður getur dottið úr vagninum og meitt sig mikið.“

Þær voru allar sammála um að stelpur væru alveg jafn góðir kappakstursbílstjórar og strákar, „við erum alveg jafngóðar og þeir,“ sagði Soffía Svanhvít að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert