Viss um að veiðigjaldið fari í gegn

Björn Valur Gíslason
Björn Valur Gíslason mbl.is/Ómar Óskarsson

Björn Valur Gíslason, þingflokksformaður Vinstri grænna, er þess fullviss að frumvarp um veiðigjöld verði afgreitt sem lög frá Alþingi. Þetta sagði hann í útvarpsþætti Sigurjóns M. Egilssonar, Sprengisandi, í morgun. Þar skeggræddu þeir Björn Valur og Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ.

Friðrik sagði þá ákvörðun að senda skipin ekki aftur út á sjó eftir sjómannadaginn í dag vera neyðarkall til stjórnvalda og beiðni um að setjast niður með útvegsmönnum. Hann sagði að frumvörpin, um stjórn fiskveiða og veiðigjöld, hefðu komið fram á sínum tíma án þess að afleiðingar þeirra hefðu verið metin. Nú hefðu áhrifin verið metin og athugasemdum komið á framfæri en þrátt fyrir það mætti sjá á áliti meirihluta atvinnuveganefndar Alþingis að afleiðingarnar væru þær sömu og þegar þau voru lögð fram.

Hann sagði að ekki hefði verið tekið tillit til umsagna og álitsgerða og því væri kallað eftir því að sest yrði niður og vandað til verka.

Þessu var Björn Valur ekki sammála. Hann benti á að aðeins væri búið að afgreiða frumvarp um veiðigjöld til Alþingis eftir meðferð hjá nefndinni og tekið hefði verið tillit til flestra athugasemda, m.a. varðandi alls kyns útreikninga. Hann sagði ósanngjarnt að halda öðru fram. Um allt aðrar upphæðir væri að ræða en í upphafi. „Ég átta mig ekki á því hvernig hægt er að halda þessu fram, enda sýna gögnin fram á annað.“

Spurður hvort útgerðin gæti greitt meira sagði Friðrik spurninguna frekar þá hvað væri sanngjarnt. Hægt væri að kreista alla og ríkið gæti allt eins hækkað skatta á almenning upp í 80%. Fólk gæti greitt en það myndi ekki lifa góðu lífi. Eins þyrfti að reka sjávarútveginn með hagnaði þannig að hann gæti þróast og hægt væri að fjárfesta í honum.

Viltu ekki hringja í mig seinna?

Birni Val var um tíma farið að leiðast þófið og taldi greinilega að Friðrik fengi of mikinn tíma til að tala. „Sigurjón, viltu ekki bara hringja í mig seinna?“ sagði hann en beið þó engu að síður á línunni.

Þegar kom að Birni Val sagði hann LÍÚ stunda skæruhernað og því hefði verið laumað að sjómönnum að senda skipin ekki aftur út á sjó þegar þau voru lögst að bryggju. Hann spurði Friðrik hversu lengi hann vildi setjast niður með stjórnvöldum í þetta skipti, en engin önnur hagsmunasamtök hefðu fengið jafnmarga fundi í sjávarútvegsráðuneytinu. Hann hefði sjálfur haldið tugi funda frá áramótum.

Hann hvatti Friðrik til að senda skipin aftur út á sjó og hann skyldi sjá til þess að fundað yrði með LÍÚ í vikunni.

Friðrik J. Arngrímsson framkvæmdastjóri LÍÚ.
Friðrik J. Arngrímsson framkvæmdastjóri LÍÚ. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert