Segir aðgerðir útgerðarmanna ólögmætar

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra.
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, sagði á Alþingi í dag að hún teldi að sú ákvörðun útgerðarmanna að senda skip sín ekki til veiða í dag, í mótmælaskyni við framgöngu ríkisstjórnarinnar í tengslum við breytingar á lögum um stjórn fiskveiða, fæli í sér pólitískt verkbann sem væri brot á vinnulöggjöf landsins. Sagði hún aðgerðirnar ógeðfelldar.

Til snarpra orðaskipta kom á milli Jóhönnu og Jóns Gunnarssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, en Jón rifjaði upp ýmis ummæli sem hún hefði viðhaft í umræðum um sjávarútvegsmál sem honum þóttu ekki við hæfi og gagnrýndi forsætisráðherra fyrir árásir á sjávarútveginn.

Spurði Jón forsætisráðherra ennfremur að því að hverjum ummælum hennar hefði verið beint. Taldi hann síðan upp nokkra af þeim aðilum sem gagnrýnt hafa frumvörp ríkisstjórnarinnar um stjórn fiskveiða og þar á meðal Alþýðusamband Íslands og Landssamband smábátasjómanna.

Jóhanna sagðist ekki kannaðist við ummælin en fór á móti hörðum orðum um gagnrýni sjávarútvegarins á ríkisstjórnina. Ítrekaði hún að breytingarnar á stjórn fiskveiða við Ísland væru ekki síst hugsaðar til þess að gefa þjóðinni sanngjarna hlutdeild í arðinum af auðlindinni.

Árni Þór Sigurðsson, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, tók undir með Jóhönnu um að aðgerðir útgerðarmanna væru ólögmætar og spurði forsætisráðherra til hvaða aðgerða ríkisstjórnin hygðist grípa til vegna þeirra.

Jóhanna svaraði því til að málið yrði tekið til skoðunar hjá ríkisstjórninni og rætt innan hennar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert