Alþingi samþykki fjármögnun Vaðlaheiðarganga

Vaðlaheiðargöng.
Vaðlaheiðargöng. mbl.is

Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga skorar á Alþingi Íslendinga að samþykkja frumvarp fjármálaráðherra um fjármögnun Vaðlaheiðarganga hið fyrsta, en tilboð í verkið rennur út 14. júní nk. og hafa tafir á verkefninu þegar valdið talsverðum skaða.

„Gerð ganganna er mikilvæg samgöngubót fyrir alla þá sem ferðast um Norðurland og öryggisatriði fyrir íbúa austan Vaðlaheiðar þar sem heilbrigðisþjónusta í Þingeyjarsýslu hefur verið skert verulega á síðustu árum. Göngin eru þjóðhagslega hagkvæm, bæta umferðaröryggi, stytta leiðir og efla innviði dreifðra byggða. Síðast en ekki síst eru göngin mikilvægur þáttur í því að byggja upp öflugt atvinnu- og þjónustusvæði á Norðausturlandi í tengslum við nýtingu orkuauðlinda svæðisins. Færa má rök fyrir því að slík uppbygging geti á komandi áratugum skapað forsendur til þess að gera svæðið fyllilega samkeppnisfært við suðvestur hornið. Því verður ekki trúað að þingmenn vilji leggja stein í götu slíkra straumhvarfa í átt til jafnvægis í byggðaþróun landsins,“ segir í áskoruninni.

Þá segir: „Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga þykir miður hvernig reynt hefur verið að afvegaleiða umræðuna um Vaðlaheiðargöng með ýmsum hætti og þannig komið í veg fyrir að staðreyndir málsins hafi birst með skýrum hætti. Ríkissjóður ábyrgist einungis fjármögnun framkvæmdanna en greiðir ekki framkvæmdakostnaðinn. Hann verður greiddur með veggjöldum. Framkvæmdin tekur því ekki fé frá öðrum brýnum verkefnum og þeir fjármunir sem ætlaðir eru í gerð ganganna munu ekki nýtast öðrum framkvæmdum eða brýnum málaflokkum. Vert er að benda á að beinar og óbeinar tekjur ríkissjóðs á framkvæmdatímanum geta orðið verulegar. Þá fjármuni má nota í önnur brýn verkefni í þágu samfélagsins.

Áhættan af framkvæmdunum er ekki eins mikil og haldið hefur verið fram og er ekki öll ríkissjóðs. Aðrir sem leggja fram hlutafé, sveitarfélög og einkaaðilar, taka hluta hennar. Í ljósi þess að áætlaður líftími ganganna er 100 ár breytir það engu hvort uppgreiðsla þeirra tekur 25 eða 35 ár með innheimtu veggjalda.

Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga hvetur þingmenn til að samþykkja heimild til að fjármagna framkvæmdina en bregða ekki fæti fyrir þessa brýnu framkvæmd sem mun hafa í för með sér jákvæða innspýtingu í atvinnulíf þjóðarinnar án þess að skerða getu ríkissjóðs til annarra verkefna.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert